Skellurinn varð stærri fyrir þjóðina

Stjórnendur og starfsmenn Kaupþings koma fyrir Hæstarétt í dag.
Stjórnendur og starfsmenn Kaupþings koma fyrir Hæstarétt í dag. mbl.is/Ómar Óskarsson

Markaðsmisnotkun sem fyrrverandi stjórnendur og starfsmenn Kaupþings voru sakfelldir fyrir gerði það að verkum að skellurinn fyrir þjóðina varð enn stærri þegar spilaborgin hrundi í október 2008. Þetta sagði Björn Þorvaldsson, saksóknari, sem vill að Hæstiréttur fullnýti refsirammann gagnvart þeim.

Níu Kaupþingsmenn eru ákærðir í málinu en sjö þeirra voru sakfelldir fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrra. Saksóknari krefst sakfellingar yfir þeim sem voru sýknaðir eða fengu ákærum vísað frá og refsiþyngingar yfir þeim sem hlutu dóma. Sakborningarnir krefjast sýknu, ómerkingar héraðsdóms eða frávísunar ákæra.

Ákærðu í málinu eru Hreiðar Már Sig­urðsson, fyrr­ver­andi for­stjóri bank­ans, Sig­urður Ein­ars­son, fyrr­ver­andi stjórn­ar­formaður bank­ans, Magnús Guðmunds­son, fyrr­ver­andi for­stjóri Kaupþings í Lúx­em­borg, Ingólf­ur Helga­son, fyrr­ver­andi for­stjóri Kaupþings á Íslandi, Ein­ar Pálmi Sig­munds­son, fyrr­ver­andi for­stöðumaður eig­in viðskipta Kaupþings, Birn­ir Sær Björns­son og Pét­ur Krist­inn Guðmars­son, starfs­menn eig­in viðskipta, Bjarki Diego, fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóri út­lána Kaupþings og Björk Þór­ar­ins­dótt­ir, fyrr­ver­andi lána­full­trúi í lána­nefnd bank­ans.

Ingólfur fékk fjögurra og hálfs árs fangelsisdóm, Bjarki tveggja og hálfs árs og Sigurður eins árs dóm ofan á þann sem hann hlaut í al-Thani-málinu. Hreiðar Már var sakfelldur en ekki gerð frekari refsing en í al-Thani málinu. Hinir þrír fengu skilorðsbundna fangelsisdóma. 

Björk var sýknuð af ákæru um umboðssvik. Ákæruliðum gegn Magnúsi var vísað frá og hann sýknaður að öðru leyti.

Frétt mbl.is: Sjö Kaupþingsmenn sakfelldir

Langvarandi og stórfelld íhlutun á markaði

Kaupþingsfólkið er sakað um að hafa haldið uppi verði á hlutabréfum í bankanum með því að láta bankann kaupa þau í miklum mæli. Til þess að koma í veg fyrir að þurfa að tilkynna um eignarhlutdeild bankans í sjálfum sér eins og lög kveða á um hafi stjórnendurnir og starfsmennirnir selt bréfin til félaga sem fengu lán frá Kaupþingi gegn litlum eða engum veðum fyrir kaupunum.

Björn sagði að háttsemin sem sakborningunum er gefin að sök hefði falið í sér langvarandi og stórfellda íhlutun á hlutabréfamarkaði. Bréf í Kaupþingi hefðu í raun ekki lotið lögmálum markaðarins heldur hefðu stjórnendur bankans stýrt verðmyndun á þeim og blekkt þannig yfirvöld og samfélagið í heild. Það hefði miðað að því að halda verði á bréfunum stöðugu og að tryggja seljanleika þeirra.

Ljóst sé að viðskiptin hafi verið ákveðin og framkvæmd sem liður í stefnu stjórnenda. Hreiðar Már og Sigurður hafi lagt línuna um háttsemina. 

Frétt mbl.is: Mál án fordæma

Hafnaði Björn kröfum ákærðu um frávísun og ómerkingu dóms Héraðsdóms Reykjavíkur. Þær byggjast að miklu leyti á því að brotið hafi verið á rétti sakborninganna með símhlerunum sem þeir sættu. Björn neitaði því að hlustað hefði verið á samtöl sakborninga við verjendur sína og vísaði til fyrri dóma þar sem frávísunarkröfum sem byggðu á þeim rökum hafi verið hafnað.

Um frávísun Héraðsdóms á hluta ákæra á hendur Magnúsi vegna þess að Fjármálaeftirlitið hefði ekki kært háttsemi hans sagði Björn að ákæruvaldið væri ósammála. Nóg væri að FME hefði kært brot til lögreglu án þess að það tilgreindi einstaklinga.

Það væri afar einkennileg staða ef senda þyrfti mál aftur til FME í hvert skipti sem grunur beindist að nýjum einstaklingum eftir að FME hefði vísað brotum til lögreglu. Því taldi Björn að Hæstiréttur ætti að snúa við frávísun ákæra á hendur Magnúsi.

Fullnýti refsirammann

Fullyrti Björn að sakborningar hefðu haft augljósan beinan og óbeinan hag af háttseminni vegna kaupréttar þeirra og himinhárra bónusgreiðslna. Það stuðlaði að því að þeir voru tilbúnir að grípa til örþrifaráða til að halda uppi verði hlutabréfanna.

Umboðssvikin og markaðsmisnotkunin hefðu átt þátt í að leiða bankann til glötunar og gera tjón kröfuhafa og samfélagsins verra. Þá væru brotin fordæmalaus hvaða varðar stærð þó dæmt hefði verið fyrir svipuð brot áður.

Björn sagði háttsemina með nokkrum ólíkindum því um væri að ræða skipulagða markaðsmisnotkun yfir langt tímabil með bréf stærsta fyrirtækis landsins. Þegar litið væri til nýlegra hæstaréttardóma væri ljóst að dómstóllinn liti þau alvarlegum augum. Brotin í þessu máli væru enn alvarlegri en þau sem sakfellt hefði verið fyrir áður.

Í tilfelli Hreiðars Más, Sigurðar og Ingólfs sagði Björn að nýta yrði refsirammann til fulls í ljósi alvarleika brotanna og benti á heimild í hegningarlögum fyrir því að þyngja refsingar eftir málavöxtum.

Björn Þorvaldsson saksóknari.
Björn Þorvaldsson saksóknari. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert