Viðskiptin við lýði til fjölda ára

Hreiðar Már Sigurðsson, fv. forstjóri Kaupþings, Ingólfur Helgason, fv. forstjóri …
Hreiðar Már Sigurðsson, fv. forstjóri Kaupþings, Ingólfur Helgason, fv. forstjóri Kaupþings á Íslandi, og Sigurður Einarsson, fv. stjórnarformaður bankans, voru sakfelldir vegna markaðsmisnotkunarinnar í héraði. mbl.is

Fátt benti til þess að viðskipti Kaupþings með eigin bréf væru litin hornauga af eftirlitsaðilum enda höfðu slík viðskipti verið við lýði til fjölda ára. Verjandi Hreiðars Más Sigurðssonar gerði lítið úr ábyrgð hans á viðskiptunum þegar Hæstiréttur tók markaðsmisnotkunarmál hans fyrir í morgun.

Hreiðar Már var sakfelldur ásamt sex öðrum stjórnendum og starfsmönnum Kaupþings fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrra. Þeim var gefið að sök að hafa haldið uppi hlutabréfaverði bankans með því að láta bankann kaupa bréf í sjálfum sér í miklum mæli og selja þau félögum sem fengu lán frá Kaupþingi gegn litlum eða engum veðum.

Hörður Felix Harðarson, verjandi Hreiðars Más, sagði Fjármálaeftirlitið ekki hafa gert athugasemdir við viðskipti bankans með eigin bréf þrátt fyrir því væri kunnugt um þau. Fjölmargir sérfræðingar innan bankans hafi þekkt vel til framkvæmdarinnar án þess að gera sér grein fyrir að þau væru ólögleg.

Frétt mbl.is: Skellurinn varð verri fyrir þjóðina

Þá benti verjandinn á að svið eigin viðskipti Kaupþings hafi ekki heyrt undir Hreiðar Má. Óumdeilt sé að honum hafi verið kunnugt um viðskiptin því þau hafi ekki verið ný af nálinni. Hreiðar Már hafi hins vegar ekki vitað hvernig framkvæmd viðskiptanna var háttað eða hvernig staðið var að framsetningu þeirra. Þá hafi hann ekki verið í aðstöðu til að fylgjast með viðskiptunum þar sem hann var ekki með aðgang að tölvukerfi þar sem haldið var utan um þau.

Telur að brotið hafi verið á réttindum forstjórans

Hreiðar Már krefst þess aðallega að dómur yfir honum verður ómerktur, jafnvel þó að honum hafi ekki verið gerð refsing umfram þá sem hann hlaut í al-Thani-málinu. Saksóknari í málinu krefst þess á móti að honum verði gerður refsiauki. Verjandi hans sagði ómerkingarkröfuna byggja á því að brotið hafi verið á rétti hans í allnokkrum atriðum.

Þar vegi þyngst réttur hans um aðgang að rannsóknargögnum málsins. Auk þess hafi ákæruvaldið í ríkum mæli notast við símhleranir sem verjandinn fullyrti að hafi verið aflað í trássi við ákvæði stjórnarskrárinnar. Þá hafi honum ekki verið tryggður réttur til að vera viðstaddur aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Refsiramminn nær tæmdur nú þegar

Hörður Felix sagði að ef til þess komi að Hreiðar Már verði sakfelldur verði að líta á mögulega refsingu sem refsingarauka við fimm og hálfs árs dóm sem hann fékk í al-Thani-málinu. Refsiramminn í málum af þessum toga sé sex ár og því sé nú þegar nær búið að tæma hann.

Hreiðar Már hafi ekki haft neinn persónulegan ávinning af brotunum en slíkt hljóti að teljast alvarlegustu brotin gegn lögunum. Því sé ekki efni til að bæta við þann þunga dóm sem hann hefur þegar hlotið.

Þá sagði verjandinn að líta þyrfti til þess að Hreiðar Már hafi haft réttarstöðu sakbornings í rúm sjö ár. Hann hafi verið til rannsóknar í á öðrum tug sakamála, sætt gæsluvarðhaldi, farbanni og símhlerunum og verið sóttu til saka í fjórum sakamálum á sama tíma.

Ekki hafi verið nóg um þetta heldur hafi hann þurft að sæta neikvæðri umfjöllun fjölmiðla og ábyrgðarlausum ummælum ráðamanna þjóðarinnar og eftirlitsstofnana. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert