„Hvað ertu að meina með þessu?“

Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata.
Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, segir að svo virðist sem misskilningur hafi valdið því að Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, hafi verið sökuð um að hafa reynt að beita sér fyrir því að Gunnari Ingibergi Jónssyni, fyrrverandi gjaldkera flokksins, yrði komið ofar á lista í Norðvesturkjördæmi.

„Þegar ég talaði við Birgittu sagði hún að þetta hafi verið eitt samtal við þennan einstakling, þar sem hún væri að velta upp einhverjum sviðsmyndum. Hún væri ekki að skipa nokkrum manni fyrir,“ sagði Ásta Guðrún í þættinum Vikulokin á Rás 1.

Frétt mbl.is: Píratar gagnrýna Birgittu

Vinnustaðasálfræðingur vegna túlkunar orða

Að sögn Ástu var vinnustaðasálfræðingurinn sem flokkurinn naut aðstoðar í vetur fenginn til að leysa úr málum sem þessum, þar sem orð eru túlkuð á mismunandi hátt.

„Ég fyrstu virðist þetta vera þannig misskilningur, út af því að Birgitta er stór fígúra í Pírötum þá hafi fólk tekið því sem svo að það sem hún væri að mæla væri lög,“ sagði Ásta og bætti við að Birgitta megi hafa sínar skoðanir. Hún hafi samt ekkert valboð.

Birgitta Jónsdóttir.
Birgitta Jónsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Prófkjörið var klúður

Spurð hvort prófkjörið í Norðvesturkjördæmi hafi verið klúður sagði hún: „Já, það er það. Ég verð að viðurkenna að ég held að enginn innan Pírata sé sáttur með framkvæmdina. Ég held að við þurfum að fara ítarlega yfir niðurstöðuna og læra af henni.“

Þegar Ásta var spurð hvort Birgitta sjálf væri rót samskiptavandans, sagði hún að því mætti velta fyrir sér. „Ég á alltaf í mjög góðum samskiptum við Birgittu en oft er það þannig með fólk sem er mjög skapandi og með hugsun út á við að það segir svolítið margt. Maður þarf stundum að spyrja: „Hvað ertu að meina með þessu?“,“ sagði hún.

„Mín samskipti við Birgittu hafa nánast að öllu leyti verið mjög jákvæð, ekki síst eftir að við fengum vinnustaðasálfræðing við að búa til ferla til að gera greinarmun á upplifun okkar á orðum fólks og því sem manneskjan var virkilega að segja.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert