Búvörulögin samþykkt á Alþingi

Frumvarp Gunnars Braga Sveinssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um búvörusamning voru samþykkt á Alþingi í dag með 19 atkvæðum gegn sjö. Þingmenn Bjartrar framtíðar greiddu atkvæði gegn frumvarpinu, sem og Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Sextán þingmenn sátu hjá og 21 var fjarverandi eða með fjarvist.

Frumvarpið var samþykkt með atkvæðum stjórnarþingmanna úr Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum. Fjórir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við atkvæðagreiðsluna, sem og fimm þingmenn Samfylkingarinnar, fimm þingmenn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og tveir þingmenn Pírata. Aðrir þingmenn voru ekki viðstaddir atkvæðagreiðsluna.

Frumvarpið hefur verið mjög umdeilt, ekki síst að búvörusamningarnir séu gerðir til tíu ára. Breytingatillaga um að styrkir féllu niður til þeirra sem stunduðu dýraníð var felld en samþykkt vægari tillaga sem fjallar um dýraníð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert