Eitthvað alveg sérstakt við aldurshópinn

Andrea Hauksdóttir, Róbert Kesheshzade, Karel Candi og Þorbjörg Jónsdóttir. Hjónin …
Andrea Hauksdóttir, Róbert Kesheshzade, Karel Candi og Þorbjörg Jónsdóttir. Hjónin Þorbjörg og Lee Lynch kenna m.a. á háskólastigi og halda kvikmyndanámskeið fyrir ungt fólk. mbl.is/Eggert

Mikill sköpunarkraftur er það sem ungmenni frá Kaliforníu og Íslandi eiga sameiginlegt. Þetta segir kvikmyndagerðarkonan Þorbjörg Jónsdóttir sem heldur kvikmyndanámskeið fyrir aldurshópinn 16 til 25 ára með eiginmanni sínum Lee Lynch í samstarfi við Hitt Húsið. Þau hafa haldið námskeiðið hér og einnig í Los Angeles þar sem þau bjuggu um árabil og segja nálgun hópanna ólíka eftir umhverfinu sem þeir alast upp í en í grunninn sé manneskjan alltaf eins.

„Þetta er bara svo skemmtilegt. Það er eitthvað alveg sérstakt við þennan aldurshóp sem ákveður að taka sér tíma til að vera skapandi og búa eitthvað til, þrátt fyrir að vera jafnvel í fullri vinnu eða námi. Honum fylgir mikill kraftur sem er alveg einstaklega skemmtilegt að vera í kringum og vinna með,“ segir Þorbjörg Jónsdóttir, kvikmyndagerðarkona og myndlistarmaður. Hún rekur Teenage Wasteland of the Arts ásamt eiginmanni sínum, Lee Lynch, og í samvinnu við Hitt Húsið halda þau námskeið í kvikmyndagerð og vídeóinnsetningum fyrir 16-25 ára, sem hefst á morgun, 14. september. Að námskeiðinu loknu sýna nemendur afraksturinn í Bíó Paradís.

Hjónin hafa haldið þessi námskeið fjórum sinnum áður hér á landi og einnig í Los Angeles en þau bjuggu þar um árabil og stunduðu nám áður en þau fluttu til landsins. Í Los Angeles unnu þau mikið með ungu fólki og út frá því varð námskeiðið til. Heiti námskeiðsins, Teenage Wasteland of the Arts, vísar í laglínu úr laginu Baba o'Riley með hljómasveitinni The Who, sem er greinilega í uppáhaldi hjá þeim hjónum.

Á námskeiðinu hafa nemendur m.a. gert heimildarmyndir, tónlistarmyndbönd, leiknar stuttmyndir, myndlistarvídeó, vídeóljóð og svo mætti lengi telja. Nemendahópurinn á námskeiðinu hefur verið fjölbreyttur í gegnum tíðina, allt frá menntaskólanemendum til útskrifaðra leikara. Nemendur þurfa hvorki að búa að reynslu í kvikmyndagerð né eiga dýrar græjur til að búa til eigið efni á námskeiðinu.

Ein aðalhugmyndin að baki námskeiðinu er að finna leiðir til listköpunar þrátt fyrir að hafa ekki aðgang að fínustu græjunum heldur komast að því hvernig er hægt að framkvæma þær hugmyndir með því að notast við tiltæk tæki.

Vinna með áhugasvið

Námskeiðið er byggt upp eins og nám í listaháskóla en bæði Þorbjörg og Lee Lynch hafa kennt á háskólastigi, Þorbjörg bæði við Listaháskóla Íslands og California Institute of the Arts í Los Angeles, og Lee við Kvikmyndaskóla Íslands.

Á námskeiðinu í Hinu Húsinu hittast nemendur einu sinni í viku og hver og einn sýnir hópnum það verk eða kvikmynd sem hann vinnur í. Kennarar og hópurinn koma svo með viðbrögð og umræður.

„Markmið námskeiðsins er að búa til umhverfi þar sem nemendur geta gert það sem þau langar. Við hvetjum nemendur til að nálgast vinnuna út frá sínu áhugasviði. Við viljum virkja ungt fólk til að gera kvikmyndir og vídeó, búa til list þrátt fyrir að vera ekki með aðgang að milljón króna myndavél og tölvu,“ segir Þorbjörg.

Hún bendir á að margir af þeim nemendum sem hafa komið á námskeið til þeirra séu að velta listnámi fyrir sér og séu forvitnir um það. „Við höfum hjálpað mörgum nemendum t.d. að sækja um listnám, og námskeiðið þjónar líka þeim tilgangi,“ segir Þorbjörg. Það á jafnt við um kvikmyndanámskeiðið á Íslandi og í Los Angeles. Á námskeiðinu í Los Angeles hafa fleiri nemendur verið í yngri kantinum eða frá 16 til 20 ára, en á Íslandi hefur námskeiðið verið opið ungu fólki upp í 25 ára. Að öðru leyti segir hún nemendurna ekki ólíka. „Auðvitað er munur á menningu hópanna. Það er allt öðruvísi að alast upp í Los Angeles en í Reykjavík og félagslega umhverfið er annað. En í grunninn er manneskjan eins, kjarninn er sá sami,“ segir hún. Hún segir nemendahópinn alltaf með mjög frjóar og róttækar hugmyndir.

Þorbjörg er með BA-gráðu í myndlist við Listaháskóla Íslands og meistaragráðu í listrænni kvikmyndagerð frá CalArts, Listaháskóla Kaliforníu í Los Angeles. Þar hitti hún eiginmann sinn, Lee Lynch, en hann er með BA-gráðu í kvikmyndagerð og meistaragráðu í myndlist frá USC. Hún segir þau hjónin eiga mjög auðvelt með að vinna saman, sérstaklega með svona frjóum og skemmtilegum hóp eins og sækir námskeiðin. Þau eru nú einnig að vinna saman að heimildarmynd í fullri lengd, sem fjallar um landafundi víkinga í Norður-Ameríku og er byggð á Eiríks sögu rauða.

Hægt er að skrá sig á námskeiðið á www.hitthusid.is og www.teenagewastelandofthearts.com
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert