Gæsluvarðhald staðfest í byssumáli

mbl.is/Eggert

Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurði yfir tveimur mönnum sem eru grunaðir um að hafa skotið úr haglabyssu á bifreið í Iðufelli í Breiðholti í kjölfar átaka. Mennirnir skulu sæta gæsluvarðhaldi til 7. október.

Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu segir, að um klukkan 21. föstudaginn 5. ágúst hafi lögreglan verið kölluð að Leifasjoppu við Iðufell í Reykjavík þar sem tilkynnt hafi verið um tvo menn sem hefðu skotið úr haglabyssu á bifreið. Vitni hafi borið um að þau hafi séð átök milli karlmanna og heyrt tvo skothvelli.

Mennirnir, sem eru bræður, voru handteknir 6. og 8. ágúst. Annar þeirra játaði í skýrslutöku að hafa skotið einu skoti úr byssunni, en kvaðst hafa gert það eftir að hafa tekið vopnið af öðrum manni sem hann og meðákærði hafi verið átökum við.

Þá segir í greinargerð lögreglu að fjölmörg vitni hafi orðið vitni að atvikinu. Einnig sé til upptaka úr eftirlitsmyndavél úr anddyri fjölbýlishúss. 

Einnig kemur fram að svört íþróttataska með byssu hefði fundist í ruslarennu við fjölbýlishús og að blóðkám hafi verið á skotvopninu. 

Að sögn lögreglu er rannsókn málsins komin langt á veg, en það er mat hennar að mennirnir hafi í sameiningu stofnað lífi og heilsu fjölda fólks í augljósa hættu þetta kvöld. Bæði þeirra sem þeir hafi átt í útistöðu við og annarra en fjöldi fólks hafi verið á ferli m.a. börn og ungmenni og þá hafi verið skotið af byssunni í miðri íbúðabyggð. Þá hafi þeir notað vopn til verksins sem búið hafi verið að eiga við með þeim hætti að eiginleikar vopnsins hafi verið hættulegri en ella. Hafi kærðu mátt vera ljós sú augljósa hætta sem gæti skapast af háttsemi þeirra.

Í úrskurði héraðsdóms kom fram að mennirnir séu undir sterkum grun um að hafa framið afbrot sem að lögum geti varðað að 10 ára fangelsi. Brotið sé þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert