Nefndin notuð í pólitískum tilgangi

Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar.
Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar.

Verið er að nota fjárlaganefnd í pólitískum tilgangi og það er í hæsta máta óeðlilegt að nefndin taki upp mál sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafði áður afgreitt þar sem formönnum fjárlaganefndar líkar ekki fyrri niðurstaða. Þetta segir Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar og 2. formaður fjárlaganefndar, í samtali við mbl.is.

Í gær kynntu þau Vigdís Hauksdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson, formaður og varaformaður nefndarinnar, skýrslu þar sem fyrrverandi fjármálaráðherra er borinn þungum sökum og sagt að samningar við kröfuhafa bankanna hafi orðið til þess að tugmilljarða meðgjöf var af hálfu ríkisins með endurreisn bankanna árið 2010 og að ríkið hafi tekið mest alla áhættu í málinu án þess að fá nema þriðjung ágóðans.

Þegar búið að skoða málið

Oddný segir að hjá Alþingi sé að störfum þingnefnd sem hafi það hlutverk að fara ofan í svona mál og ásakanir og hún nefnist stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Í fyrra hafi hún skoðað þessar sömu ásakanir og gefið úr skýrslu sem Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kynnti og þar með hafi málinu verið lokið af hálfu þingsins. Niðurstaða skýrslunnar var að engar skipulagðar blekkingar eða svik hefðu átt sér stað til hags­bóta fyr­ir er­lenda kröfu­hafa á kostnað rík­is­ins og ein­staka skuld­ara þegar nýju bank­arn­ir voru sett­ir á fót eft­ir.

„Misnotkun á einni mikilvægustu nefnd þingsins.

„Það er í hæsta máta óeðlilegt að önnur nefnd taki málið upp af því að henni líkar ekki fyrri niðurstaða,“ segir Oddný og bætir við að þá setji hún stórt spurningarmerki við það hvernig skýrslan sé unnin. „Mér finnst þetta vera misnotkun á einni mikilvægustu nefnd þingsins. Það er verið að nota nefndina í pólitískum tilgangi.“ Segir Oddný ekkert faglegt vera við skýrsluna eða að þar sé bætt við upplýsingum sem ekki hafi komið fyrir áður.

Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar og Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar.
Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar og Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Oddný átelur einnig hvernig staðið hafi verið að útgáfu skýrslunnar. Þingmenn geti í raun gert það sem þeir vilji við sinn tíma, en að þarna sé skýrsla gefin út í nafni nefndar sem þó hafi ekki tekið skýrsluna til umræðu. Þá sé hún ekki heldur birt á vef Alþingis sem opinbert skjal og enginn sé skráður fyrir henni. Einnig megi sjá á skýrslunni að hún hafi ekki verið lesin yfir með tilliti til íslensku og að það þýði að skýrslan komi ekki frá þinginu, enda séu öll opinber skjöl lúslesin af starfsmönnum þess fyrir útgáfu.

Pólitískar árásir og dylgjur

Segist hún hafa mótmælt þessari vinnu þegar hún fór af stað á sínum tíma en svo í gær hafi þau fengið að vita af blaðamannafundi án þess að minnihlutinn hafi fengið hana í hendur eða til umfjöllunar.

Segist Oddný ætla að fara fram á það á næsta fundi fjárlaganefndar að þessi mál séu rædd. Segist hún ekki skilja þessi vinnubrögð og að þau kalli á skýringar. „Ég skil ekki í þessu nema að þetta séu pólitískar árásir og dylgjur,“ segir Oddný.

Frétt mbl.is: Tugmilljarða meðgjöf með bönkunum

Frétt mbl.is: Bera Steingrím þungum sökum

Frétt mbl.is: Langt seilst til að friða kröfuhafa

Frétt mbl.is: Gefur ekki mikið fyrir skýrsluna

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert