Dreymdi tölurnar fyrir mörgum árum

Tölurnar birtust í draumi fyrir mörgum árum.
Tölurnar birtust í draumi fyrir mörgum árum.

Vinningshafinn frá því síðasta laugardag kom til Getspár í morgun með vinningsmiðann góða sem gaf honum rúmlega 45 milljónir í vinning – skattfrjálst.  Eigandi miðans hafði dreymt vinningstölurnar fyrir mörgum árum síðan og skrifað þær á leikspjald. 

„Leikspjaldið týndist en fannst aftur nýlega og var þá ákveðið að láta reyna á draumatölurnar þó að þær væru komnar til ára sinna og viti menn; þær gáfu þennan góða vinning sem skilaði sér á góðan stað,“ segir í fréttatilkynningu frá Íslenskri getspá. 

Um er að ræða hjón sem eru að skipta um húsnæði og átti að skrifa undir sama dag og þau uppgötvuðu þennan stóra lottóvinning. 

„Keyrðu maðurinn og kona hans beint til Getspár með miðann og voru mjög ánægð eins og vænta má og sögðust ekkert skilja í af hverju  þau hefðu unnið þennan stóra vinning – af hverju við? 

Hjónin eru utan af landi og þegar vinningurinn var staðfestur hjá Getspá var ákveðið að gista ekki hjá fjölskyldumeðlimi í þessari borgarferð heldur fara á hótel og það flott hótel og fá sér flott að borða í kvöld og  konan var svo ánægð að hún sagði að þau gætu nú meira að segja í fyrsta skipti fengið sér að borða það sem hún vildi án þess að skoða verðið á matseðlinum,“ segir ennfremur í fréttatilkynningu. 

Þau ætla að þiggja fjármálaráðgjöf í boði Getspár og reikna með að sleppa því að taka lán fyrir nýja húsnæðinu sem þau voru að fjárfesta í og svo ætla þau að fá sér rúmgóðan húsbíl sem þau geta boðið barnabörnunum með í ferðalag en hjónin eiga mörg börn og nokkur barnabörn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert