Meirihlutinn styður skýrslugerðina

Frá fundi í fjárlaganefnd.
Frá fundi í fjárlaganefnd. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Meirihluti fulltrúa í fjárlaganefnd Alþingis styður forystu nefndarinnar í þeirri vinnu sem liggur að baki skýrslu sem lögð var fram fyrr í vikunni þar sem fjallað er um endurreisn bankakerfisins á síðasta kjörtímabili. Níu þingmenn sitja í nefndinni og fimm þeirra styðja þá vinnu.

Fyrir utan Vigdísi Hauksdóttur, þingmann Framsóknarflokksins og formann fjárlaganefndar, og Guðlaug Þór Þórðarson, þingmann Sjálfstæðisflokksins og varaformann nefndarinnar, er um að ræða Ásmund Einar Daðason og Pál Jóhann Pálsson, þingmenn Framsóknarflokksins, Harald Benediktsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins. Valgerður Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins segist hins vegar eiga eftir að kynna sér málið betur.

„Ég bara treysti þeim mjög vel,“ segir Ásmundur Einar spurður um stuðning hans við skýrslugerðina. Vísar hann þar til Vigdísar og Guðlaugs Þórs. Spurður hvort skýrslan hafi verið unnin af meirihlutanum segir hann skýrsluna aðallega hafa verið unna af þeim. Forysta fjárlaganefndar hefði hans stuðning í þessu máli sem og öðrum og hann hefði hvatt til þess á fundi nefndarinnar í gær að málið væri tekið til frekari umræðu í henni.

Hliðstæð vinnubrögð og í öðrum verkefnum

Haraldur segir fjárlaganefnd hafa tekið mörg mál til umfjöllunar vegna eftirlitshlutverks síns með fjárreiðum ríkisins þar unnar hafa verið umsagnir, greiningar og annað slíkt. Reglan væri sú að forystumenn nefndarinnar leiddu þá vinnu og sæu um hana og upplýstu síðan nefndarmenn eftir áföngum. Nefndin hafi verið upplýst um þessa frumkvæðisathugun forystunnar og þannig verið lagðar fram spurningalisti í nefndinni til stofnana og annarra í apríl.

Þar hefði vinnu við gagnaöflun verið formlega ýtt af stað. Slíkir spurningalistar væru gjarnan lagðir fram og kynntir í fjárlaganefnd þegar verið væri að skoða mál og nefndarmönnum þá gefið færi á að bæta við spurningum eða gera athugasemdir við vinnuna. Þessi frumkvæðisvinna hafi verið í ágætu samræmi við aðra spurningalista og upplýsingavinnu sem nefndin hafi unnið í öðrum málum.

Réttara að tala um samantekt en skýrslu

„Við vorum ágætlega upplýst um það hvað þau voru að gera þó við höfum ekki tekið beinan þátt í vinnunni,“ segir Haraldur. Stundum gengju aðrir nefndarmenn inn í ákveðin verkefni en það hafi ekki verið í þessu tilfelli svo hann viti. „En þau eru sem forystumenn nefndarinnar í okkar umboði og enginn vafi á okkar stuðningi við þeirra vinnu.“

Haraldur tekur undir með Vigdísi Hauksdóttur í viðtali við mbl.is í gær um að skýrslan væri fyrst og fremst samantekt á upplýsingum. Fyrir vikið hefði í raun átt betur við að tala um samantekt en skýrslu. Það lýsti betur eðli og inntaki vinnunnar.

Páll Jóhann segist að sama skapi styðja vinnu forystu fjárlaganefndar. „Ég stend með þeim í þessu. Þó að vinnan hafi þó mætt mest á þeim.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert