Vilja snúa vörn í sókn í skólamálum

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri kynnir tillögur borgaryfirvalda í málefnum leikskóla.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri kynnir tillögur borgaryfirvalda í málefnum leikskóla. mbl.is/Árni Sæberg

„Við erum að leggja grunn til framtíðar, með því að snúa vörn í sókn í skólamálum,“ sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, á blaðamannafundi sem haldin var í Ráðhúsinu nú eftir hádegi til að kynna 10 liða aðgerðaráætlun í skóla- og leikskólamálum Reykjavíkurborgar.

Frétt mbl.is: Leggja stóraukið fjármagn í skólana

Borgarráð samþykkti einróma á fundi sínum í morgun að veita 920 milljón króna viðbótarfjárveitingu til skóla og leikskóla í borginni. „Þetta mun fela í sér að fjármögnun skólanna er kominn á nýjan grunn,“ segir Dagur. „Ég held að það sé mjög mikilvægt að eyða ákveðinni óvissu varðandi fjárhag skólanna.“

Að sögn Dags gefur sá viðsnúningur sem fram kemur í 6 mánaða uppgjöri fyrir rekstur borgarinnar tækifæri til að forgangsraða í þágu skóla og leikskóla. „Við höfum hlustað á skólastjórnendur og fulltrúa foreldra,“ sagði hann. „Auk þess sem við byggjum aðgerðirnar á greiningum sem hafa verið í vinnslu frá því í vor.“

Dagur sagði ákveðna kerfisbundna þætti hafa verið vanrækta í rekstri skólanna, m.a. sérkennslu og skólaakstur. „Þessir þættir stefndu framúr, en verða nú fjármagnaðir í ár sem og fram í fjárhagsáætlun næsta árs.“

Hafa fengið áskoranir frá foreldrafélögum um að hækka fæðisgjöld

Þá verði sömuleiðis veitt aukafjárveiting til að auka faglegt starf í leikskólum og grunnskólum. „Við höfum fengið ábendingu frá skólum og leikskólum að það skipti verulegu máli til að skólastjórnendur geti veitt þá faglegu forystu sem þörf er á.“

Borgaryfirvöld hyggjast líka hækka fæðisgjöld sem foreldrar greiða fyrir börn sín og nemur hækkunin um 100 kr. á dag. „Við eru með þessu  að bregðast við áhyggjum af þeim mat sem leikskólabörnum stendur til boða og gerum það með því að hækka fæðisgjöldin,“ sagði Dagur. Aldrei sé vinælt að hækka gjöld en borgin hafi undanfarið fengið áskoranir frá foreldrafélögum um að gera slíkt.

Að sögn Helga Grímssonar, sviðstjóra skóla- og frístundasviðs, fer hækkunin öll til matarinnkaupa. Ekki standi hins vegar til að breyta núverandi reikniforsendur og því muni þær 78 kr. sem í dag fara til matarundirbúnings gera það áfram.

Hækka laun starfsmanna

Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs segir borgina einnig ætla að snúa vörn í sókn í mönnun leikskóla og frístundaheimila. „Þetta er vinna sem verður farið í núna í framhaldinu því við erum að  leggja nýjan grunn til framtíðar,“ sagði hann.

„Ráðningastaðan er langtímamál, en við bæði þurfum og viljum auka hlutfall leikskólakennara,“ sagði Skúli og kvað þetta vera samstarfsverkefni sem borgin þurfi að fá háskólana með sér í .“ Einn flöskuhálsinn er sé sá að verulega hafi dregið úr ásókn í kennaranám.

Skúli segir þetta verði m.a. gert með því að hækka laun starfsmanna. Hækkunin milli áránna 2015-2017 er 3,3 milljarðar og þar af er 1 milljarður ætlaður til greiðslu í ár og gert er ráð fyrir að sú fjárhæð kunni að hækka enn frekar þegar samningar hafa náðst um kjör grunnskólakennara.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert