Tæpar 12 milljónir til Hjólakrafts

Þorvaldur Daníelsson, stofnandi samtakanna Hjólakraftur, ásamt ungmennum úr Hjólakrafti, tók …
Þorvaldur Daníelsson, stofnandi samtakanna Hjólakraftur, ásamt ungmennum úr Hjólakrafti, tók í dag á móti söfnunarfénu. ljósmynd/WOW

Heilar 11.867.000 krónur söfnuðust í áheitasöfnun WOW Cyclothon sem stóð yfir dagana 15. til 17. júní. Þorvaldur Daníelsson, stofnandi samtakanna Hjólakraftur, ásamt ungmennum úr Hjólakrafti, tók í dag á móti söfnunarfénu við athöfn í Siglunesi í Nauthólsvík.

Að móttöku lokinni var kveikt upp í grillinu og boðið upp á hamborgara til að fagna góðum árangri sumarsins, að því er fram kemur í tilkynningu frá WOW air. 

Í ár var þriðja árið í röð sem Hjólakraftur kemur að WOW Cyclothon með einum eða öðrum hætti en í fyrra tóku fjögur lið þátt á þeirra vegum og var stofnaður sérflokkur í kringum þau. Í ár voru liðin 15 talsins og settu þau mikinn svip á keppnina.

WOW Cyclothon er ekki eingöngu hljólreiðakeppni því samkeppnin á milli liða um að safna flestum áheitum er einnig mikil. Í ár var það liðið Team Kvika sem stóð sig best og safnaði 756.500 krónum fyrir málefnið. Næstbest var lið Fjallabræðra með 554.000 og þriðja var lið Toyota sem safnaði 492.000.

Samtökin Hjólakraftur voru stofnuð af Þorvaldi Daníelssyni til að hjálpa börnum og unglingum sem höfðu á einn eða annan hátt orðið undir í baráttunni við lífstílssjúkdóma og ekki fundið sig í hópíþróttum. „Á næstu árum mun Hjólakraftur fara á fleiri staði, í fleiri sveitarfélög, standa fyrir námskeiðum og hvetja til stofnunar Hjólakraftsklúbba um allt land. Við viljum efla samstarf við foreldra, sveitarfélög og aðra aðila sem koma að þessu verkefni. Innan tveggja ára vil ég gjarnan að Hjólakraftur verði kominn með starfsemi í að minnsta kosti 10 sveitarfélögum,“ er haft eftir Þorvaldi Daníelssyni, forsprakka og framkvæmdastjóra Hjólakrafts, í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert