Eitt lífeyriskerfi fyrir allan vinnumarkaðinn

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, kynnti aðgerðir sem miða að samræmdu og …
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, kynnti aðgerðir sem miða að samræmdu og sveigjanlegra lífeyrissjóðakerfi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nýtt samræmt lífeyriskerfi fyrir allt launafólk á Íslandi, bæði á opinberum og almennum vinnumarkaði var kynnt í dag á fundi forsætis- og fjármálaráðuneytisins. Með breytingunni mun ríkið gera upp tugmilljarða halla á opinbera lífeyriskerfinu, lífeyrisaldur opinberra starfsmanna verður hækkaður úr 65 í 67 ár og launafólki verður gert auðveldara fyrir að færa sig á milli almenns og opinbers vinnumarkaðar hvenær sem er á starfsævinni. Með þessu eru launakjör á milli markaðanna samræmd og jöfnuð. Þetta kemur fram í tilkynningu sem birt er á vef fjármálaráðuneytisins.

Breytingarnar á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna taka til A-deildar lSR (Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins) og Brúar (Lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga). Um 35.000 manns greiða í þessa tvo sjóði.

Taki gildi 1. janúar á næsta ári

Í samkomulaginu er kveðið á um samræmingu og jöfnun lífeyrisréttinda á almennum og opinberum vinnumarkaði. Í því felst einnig að unnið verði að því að jafna mismun á launakjörum á milli þessara geira vinnumarkaðarins. Miðað er við að eftir að breytingar hafa verið gerðar á lögum um LSR og samþykktum Brúar búi allir við sama fyrirkomulag í lífeyrismálum og geti fært sig milli lífeyrissjóða hvenær sem er starfsævinnar án þess að það hafi teljandi áhrif á réttindi þeirra.

Frumvarp sem byggir á samkomulaginu verður lagt fram á Alþingi í vikunni. Ríkisstjórn hefur þegar samþykkt málið og það hefur að auki verið kynnt fulltrúum allra flokka á Alþingi. Verði frumvarpið að lögum taka breytingarnar gildi 1. janúar 2017, segir í tilkynningu ráðuneytisins.

Forsætisráðherra og fjármálaráðherra kynntu nýja kerfið í dag.
Forsætisráðherra og fjármálaráðherra kynntu nýja kerfið í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

120 milljarða framlag ríkisins til LSR og Brúar

Tryggja á réttindi sjóðsfélaga í LSR og Brú með 120 milljarða framlagi ríkis og sveitarfélaga í sérstaka lífeyrisaukasjóði, en þar af mun ríkið gjaldfæra 91 milljarð á yfirstandandi ári. Þessi eingreiðsla er sambærileg við núvirði þeirra skuldbindinga sem ella myndu falla á ríkið síðar

Með sérstökum samningi, sem gerður er samhliða samkomulagi allra aðila opinbers vinnumarkaðar, tekur ríkið að sér að greiða hlutdeild sveitarfélaga í skuldbindingum A-deildar LSR sem eru 20,1 milljarðar. Heildarkostnaður hins opinbera eykst því ekki umfram það sem óbreytt fyrirkomulag kallar á.

Tekið er fram að fjármögnunin geti komið til vegna aðstæðna í ríkisfjármálum á yfirstandandi ári, einkum vegna stöðugleikaframlags frá slitabúum fallinna fjármálafyrirtækja og óreglulegra arðgreiðslna. Þrátt fyrir mikla gjaldfærslu gerir ráðuneytið ráð fyrir að afgangur verði af rekstri ríkissjóðs á árinu upp á 330 milljarða króna.

Lífeyrisaldur opinberra starfsmanna hækkaður í 67 ár

Í tilkynningunni kemur fram að tugmilljarða halli sé á tryggingafræðilegri stöðu lífeyrissjóða opinberra starfsmanna vegna aldurssamsetningar sjóðsfélaga. Með þessu samkomulagi verður hann úr sögunni að sögn ráðuneytisins. Samhliða þessari fjármögnun verður ábyrgð ríkis og sveitarfélaga á réttindum í A-deild LSR og Brúar afnuminn.

Auk fyrrnefndra atriða verður gerð breyting á aldurstengingu réttinda. Verðu grundvallarregla líkt og verið hefur á almennum markaði síðastliðinn áratug og lífeyrisaldur opinberra starfsmanna verður hækkaður úr 65 árum í 67. Tryggt er að núverandi sjóðfélagar haldi óbreyttum réttindum og geti eftir sem áður farið á eftirlaun 65 ára, ef þeir svo kjósa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert