Boðið að koma með börnin með sér

Höfuðstöðvar 365 miðla.
Höfuðstöðvar 365 miðla. mbl.is/Ómar Óskarsson

Heimir Karlsson, annar stjórnenda morgunþáttarins Í bítið á Bylgjunni, segir það gerast nokkrum sinnum á ári að konur komist ekki í viðtöl vegna barna sinna.

„Þetta eru nánast alltaf konur. Á móti þá bjóðum við þeim alltaf, ef hægt er að koma því við, að koma með barnið með sér. Stundum hefur það boð verið þegið og þá eru börnin sett til hliðar í stúdíóinu og það hefur bara gengið vel,“ segir Heimir.

Frétt mbl.is: Konur mæta ekki vegna barna

Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365, greindi frá því á málþingi Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) í gær að þetta vandamál hefði komið upp þegar leitað hafi verið eftir því að fá konur sem viðmælendur. Málþingið var hluti af sérstöku verkefni FKA sem stendur yfir frá 2013 til 2017 sem kallar á aukna ásýnd kvenna í fjölmiðlum.

Frétt mbl.is: Konur viðmælendur í 33% tilfella

Birgitta Jónsdóttir og Katrín Jakobsdóttir á málþinginu í gær.
Birgitta Jónsdóttir og Katrín Jakobsdóttir á málþinginu í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ósáttur við ummæli Katrínar og Birgittu

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, greindi frá því á Alþingi í gær að það sé liðin tíð að konur skjóti sér undan því að mæta í viðtöl vegna þess að þær séu að sinna börnum eða bakstri. Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, kvartaði einnig yfir því á málþinginu í gær að ekki sé nógu mikið reynt að hafa samband við konur, þar á meðal hana sjálfa.

Frétt mbl.is: „Það er bara löngu liðin tíð“

Frétt mbl.is: Tróð sér inn í viðtal hjá Stöð 2

Heimir er ekki sáttur við þessar útskýringar og segir Katrínu til að mynda hafa á síðustu 12 mánuðum neitað Í bítinu einu sinni til tvisvar sinnum um viðtal vegna þess að hún komst ekki vegna þess að hún þurfti að sinna börnunum. Hann segir einnig að Birgitta hafi synjað honum tvisvar ef ekki þrisvar sinnum um viðtal á síðustu mánuðum, meðal annars vegna þess að hún var þreytt eftir langa vinnutörn. „Ég skil það og það er enginn að gera lítið úr því en ef Birgitta hefur sagst aldrei segja nei við viðtölum þá er það bara ekki rétt,“ segir Heimir.

„Mér finnst það skipta máli að hafa hlutina rétta og sanna, annars hleypir maður illu blóði í menn og þá breytist ekki neitt. Þá verður þetta bara stríð og leiðindi. Að láta hlutina ekki líta þannig út að við séum að slá ryki í augu fólks eða afsaka okkur með því að svo fáar konur séu Í bítinu að við séum að segja ósatt um þessa hluti, bara alls ekki.“

Heimir Karlsson, útvarpsmaður á Bylgjunni.
Heimir Karlsson, útvarpsmaður á Bylgjunni.

Vilja hafa báða aðila í stúdíóinu

Heimir hefur einnig heyrt fólk velta vöngum yfir því hvers vegna þeir hringi ekki í konur ef það er svona erfitt að fá þær til að vera viðmælendur. Hann segir skýringuna vera þá að þeir vilji hafa báða aðila á staðnum þegar stjórnmálaumræður eru í gangi. „Það hallar alltaf á þann sem er í útvarpinu. Hann á erfiðara með að komast að, hann „sándar“ verr og það er ekki gott fyrir viðtalið að hafa annan í síma og hinn í stúdíóinu,“ greinir hann frá.

Frétt mbl.is: Eigum enn óralangt í land

Umræðan á fullkominn rétt á sér

Á málþinginu í gær kom fram að karlmenn voru viðmælendur í 67% tilfella en konur í 33% þeirra, samkvæmt greiningu á hlutfalli kynjanna í ljósvakamiðlum.

Hvað eingöngu þætti hjá Rúv og 365 varðar voru karlar að meðaltali 64% viðmælenda en konur 36%.

Þegar nánar er rýnt í tölurnar kemur fram að karlar voru viðmælendur í 65% tilfella en konur í 35% þeirra í Í bítið. Í þættinum Reykjavík síðdegis sem er einnig á Bylgjunni voru karlar 74% viðmælenda en konur 26% þeirra. Þetta eru hærri tölur en í útvarpsþáttum Rúv þar sem hlutfall karlkyns viðmælenda var á bilinu 53 til 63%.

Frétt mbl.is: Snýst um að taka ákvörðun

Heimir segir umræðuna um jafnari kynjahlutföll viðmælenda í fjölmiðlum eiga fullkominn rétt á sér og bætir við að bókhald sé haldið utan um þessi hlutföll innan Bylgjunnar til að starfsmenn átti sig á hlutfallinu. „Við fylgjumst með því og erum að reyna að laga þetta smátt og smátt.“

Konur í íslensku atvinnulífi, úr stjórnmálum og samtökum komu saman …
Konur í íslensku atvinnulífi, úr stjórnmálum og samtökum komu saman í lok málþingsins og stilltu sér upp fyrir myndatöku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þora ekki að jafna kynjahlutföll

Í greiningu Creditinfo á málþinginu í gær kom fram að þrír þættir væru einungis með karlkyns stjórnendur og að enginn væri einungis með kvenkyns stjórnendur.

Tveir karlar eru einmitt stjórnendur Í bítið, eða Heimir og Gunnlaugur Helgason. Heimir segist oft hafa orðið var við gagnrýni um að það séu bara karlar að stjórna þáttum á Bylgjunni. Hafa ber samt í huga að Bylgjan sé frjáls útvarpsstöð sem lifi á auglýsingum og það gangi allt saman mjög vel á þar á bæ. Hann segir að samkvæmt „útvarpsfræðunum“ sé hlustun byggð upp yfir langan tíma með því að hræra ekki í dagskrárgerðarmönnum með því að skipta þeim inn og út.

„Bylgjan er útvarpsstöð sem byggir allt sitt á auglýsingainnkomu. Stjórnendur hennar hugsa sig kannski um tvisvar áður en þeir fara að gera slíkt til þess að jafna kynjahlutföll vegna þess að þeir þora því kannski ekki. Allt grundvallast á því að það sé hlustað á okkur,“ útskýrir hann. 

Margar konur komið og farið

Töluverð starfsmannavelta hefur engu að síður verið í Í bítinu og hafa margar konur komið þar og farið sem þáttastjórnendur. Þar má nefna Ingu Lind Karlsdóttur, Þóreyju Vilhjálmsdóttur, Sólveigu Bergmann, Sigríði Arnardóttur, Ragnheiði Guðfinnu Guðnadóttur, Kolbrúnu Björnsdóttur og Huldu Bjarnadóttur. Allan þennan tíma, eða frá árinu 2004, hefur Heimir Karlsson verið hinn þáttastjórnandinn.

Spurður út í þetta segist Heimir ekki hafa skýringu á reiðum höndum á því hvers vegna margar konur hafa byrjað og hætt í þættinum. „Ég held ég geti ekki sagt að þetta sé út af mér. Þær hafa bara gefist upp á þessum vinnutíma. Hann er bara erfiður og er ekki fyrir alla.“ Spurður hvort það sé vegna barna segist hann ekki getað svarað fyrir hönd kvennanna.  

Sigríður Arnardóttir.
Sigríður Arnardóttir.

Hann segir að reynt hafi verið að fá konu í staðinn fyrir Huldu Bjarnadóttur en það hafi ekki gengið eftir. Á endanum hafi verið ákveðið að Gunnlaugur Helgason, sem var með honum og Huldu í þættinum, yrði einn við hlið hans.

Spurður nánar út kynjahlutföll viðmælenda segir Heimir að Í bítið reyni að sjálfsögðu að bæta hlutföllin. Allt grundvallist þó á því að viðmælandinn sé áhugaverður og réttur, sama hvers kyns hans er. „Í þeim tilfellum sem það skiptir ekki máli og hægt er að koma því við erum við að sjálfsögðu opnir fyrir því að jafna hlutföllin og reyna að fá konur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert