„Ég get gert allt sem mig langar til“

Sóley Tómasdóttir hefur sagt skilið við stjórnmálin og hefur flutt …
Sóley Tómasdóttir hefur sagt skilið við stjórnmálin og hefur flutt ásamt fjölskyldu sinni til Hollands þar sem ævintýrin bíða þeirra. mbl.is/Eggert

„Ég verð að segja að ég er mjög fegin að þú heyrðir ekki í mér í gær því að þetta var vissulega mjög tilfinningaþrungin stund,“ segir Sóley Tómasdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem í gær sagði formlega skilið við stjórnmálin.

Sóley er flutt til borgarinnar Nijmegen í Hollandi ásamt eiginmanni sínum og tveimur börnum. Sóley tók sæti í borgarstjórn Reykjavíkur árið 2009 en hafði áður verið varaborgarfulltrúi frá 2006.
 
„Ég sit núna í lest í Hollandi á leiðinni á nýja heimilið mitt þar sem ég ætla að hefja nýja lífið mitt,“ segir Sóley en hún og eiginmaður hennar, Aart Schalk viðskiptafræðingur, hafa fest kaup á íbúð í rúmlega eitt hundrað ára gömlu húsi sem þau hafa verið að gera upp. Hún segir að þau hafi stefnt á að flytja til Hollands í 17 ár frá því að eldra barn þeirra hjóna fæddist.
 
Sóley hyggst stunda framhaldsnám í Hollandi en Aart, sem er hollenskur að uppruna, fer til starfa hjá Marel þar í landi en hann starfaði áður hjá fyrirtækinu hér á landi. „Það hefur þannig alltaf staðið til að láta verða af þessu og nú höfum við gert það og erum mjög spennt. Mér líður svolítið eins og ég hafi verið að klára stúdentinn. Ég get gert allt sem mig langar til.“

Hollenska alltaf töluð líka á heimilinu

Þetta sé þannig talsvert frábrugðið borgarpólitíkinni þar sem allt hafi verið í föstum skorðum. Núna sé fram undan skemmtileg óvissa og áskoranir. „Það er líka svo skemmtilegt að átta sig á því að það er í alvöru til líf eftir pólitíkina. Þó að maður fari í pólitík þurfi maður ekki alltaf að vera í henni. En þetta hefur verið mér rosalega lærdómsríkt og mun alltaf fylgja mér.“
 
Spurð hvernig gangi að læra hollensku segir Sóley að það gangi vel enda hafi tungumálið alltaf verið talað á heimili þeirra með íslenskunni. Aart hafi þannig alltaf talað við börn þeirra hjóna, Önnu og Tómas, á hollensku. „Við erum hins vegar að rekast á það að orðaforði okkar barnanna miðast svolítið við orðaforða fertugs karlmanns á heimili,“ segir hún og hlær.
 
Hins vegar séu þau fyrir vikið í mikilli forréttindastöðu sem innflytjendur í Hollandi. Þau hafi mjög góðan grunn. „Þetta er samt áskorun auðvitað en aðallega er þetta bara ferlega skemmtilegt ævintýri,“ segir Sóley. „Hugmyndin var alltaf að börnin fengju að alast upp líka í Hollandi og þekkja báðar menningar og bæði löndin sín en það tók smá tíma.“
 
Fjölskyldan hefur hins vegar reglulega heimsótt Holland í gegnum árin. „Við höfum oft verið hérna og þekkjum Holland vel. Þetta er frábært land.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert