Þessum lífsmáta fylgir mikið frelsi

Frédo við stýrið á skútunni góðu í heldur hráslagalegu veðri.
Frédo við stýrið á skútunni góðu í heldur hráslagalegu veðri.

Þau hafa siglt um heimshöfin árum saman og búa núorðið í skútunni sinni. Ísbirnir hafa viljað koma um borð hjá þeim og stundum þurfa þau að bíða dögum saman eftir vindi þegar olían er á þrotum.

Frönsku hjónin Fred og Frédo eru í fjórða sinn á Íslandi og ætla að hafa vetursetu hér. Þeir sem vilja slást í för með þeim næsta vor geta kynnt sér siglingaleiðir þessara ævintýrahjóna á netinu.

Við kunnum vel við okkur á norðurslóðum, við vorum á Grænlandi í allt sumar, en þangað höfum við komið þrisvar áður. Það er töfrum líkast, allur þessi ís og hvalir. Við elskum fámennið í norðri og það er eitthvað ferskt við birtuna og bláan himininn. Þurr kuldi á vetrum og ekki of heitt á sumrin. Við bjuggum í Tromsö í Noregi í fimmtán ár og þekkjum þetta vel. Hér á Íslandi löðumst við að villtri náttúrunni, norðurljósunum og skíðunum. Þetta er í fjórða sinn sem við komum til Íslands og við kunnum vel við Íslendinga, þess vegna ætlum við að hafa vetursetu hér núna,“ segja ævintýrahjónin frönsku, þau Fred og Frédo Jougla, sem sigla um heimsins höf á skútunni sinni Fredoya og búa reyndar í henni allan ársins hring. Skútan liggur nú við höfn í Reykjavík og þau ætla að nýta veturinn til að dytta að fleyinu.

„Það tekur tímann sinn að fara yfir öll seglin og gera við og styrkja bönd, því hvert segl vegur um hundrað kíló. En við ætlum líka að njóta þess sem Ísland hefur upp á að bjóða, við ætlum að sigla til Ísafjarðar eftir áramót og skella okkur á skíði. Þaðan siglum við til Dalvíkur og Akureyrar, en þar eigum vini sem við ætlum að heimsækja. Í vor leggjum við svo upp frá Akureyri og siglum til Svalbarða,“ segja þau og bæta við að þau muni tvisvar skreppa frá Íslandi með flugi meðan á vetursetunni stendur, í brúðkaup til dóttur sinnar í Frakklandi og í heimsókn til sonarins sem býr í Kanada.

Fredo er ástríðukokkur

Þau hjónin taka fram að þó að þau séu heilluð af norðrinu þá kunni þau ekki síður vel við sig í suðri. Þau hafa m.a. siglt til Karíbahafsins, Kúbu, Grenada, San Martin og Barthelemy, Azoreyja og Panama.

„Við tölum spænsku og sækjumst eftir því að heimsækja spænskumælandi þjóðir. Við erum líka hrifin af spænskum mat og spænskum vínum,“ segir Fred sem er mikill listakokkur og sér um eldamennskuna um borð. „Eldamennskan miðast við veður, það er til dæmis ekki hægt að baka brauð eða steikja egg þegar veltingurinn er mikill, þá rennur allt til,“ segir hann og bætir við að honum finnist ekki síður gaman að smakka eitthvað nýtt og framandi, hann borðaði t.d. selkjöt á Grænlandi og þótti gott.

Kenndi börnunum um borð

Undanfarin sjö ár hafa þau siglt á skútunni Fredoya um heimshöfin, en þau voru vön siglingum áður en hún var sjósett.

„Áður en við lögðum í það mikla verkefni árið 2003 að smíða okkar eigin skútu, þá höfðum við siglt í fjögur ár á annarri skútu. Þá vorum við með börnin okkar þrjú um borð með okkur og ég sá um skólakennslu þeirra. Við sigldum meðal annars til Portúgal, Írlands, Noregs og Marokkó. Þegar börnin voru orðin átta, tíu og tólf ára komumst við að því að báturinn var of lítill fyrir okkur öll, svo við ákváðum að smíða Fredoya. Þegar hún og tvær aðrar skútur voru tilbúnar sex árum síður, þá var elsti sonur okkar orðinn átján ára og hann varð eftir í Frakklandi þegar við héldum til hafs á nýju skútunni,“ segir Frédo og bætir við að nú, sjö árum síðar, séu hún og maður hennar ein eftir um borð, enda börnin öll orðin fullorðin.

„Undanfarið ár höfum við boðið fólki að sigla með okkur gegn gjaldi. Hver sem er getur sótt um það á heimasíðunni okkar og við getum boðið að hámarki sex manneskjum að sigla með okkur hverju sinni. Káeturnar eru tveggja manna og þar getur fólk verið út af fyrir sig og það er sér salerni og sturta í hverri káetu. Fólk getur siglt með okkur í nokkra daga eða vikur, það fer eftir aðstæðum hverju sinni, þetta er alltaf samkomulagsatriði. Svona sambýli um borð í litlu rými krefst vissulega opins hugarfars, en það hentar okkur.“

Þau segja ýmislegt koma upp á í ferðum þeirra um heimshöfin, vélarbilun og fleira, en aldrei hafi þau lent í lífsháska.

„Þegar við vorum á siglingu um Sporöskjusund synti ísbjörn að skútunni og hann vildi koma um borð,“ segja þau og hlæja, en það dugði að setja vélina í gang til að fæla hann í burtu. „Þegar við sigldum til Svalbarða var skilyrði að hafa byssu um borð vegna ísbjarnanna. Við höfum ekki þurft að nota hana.“

Þau segjast ekki lenda oft í vondum veðrum enda hægt að sjá gervihnattaspár fram í tímann og forðast slíkt.

„Stundum þurfum við samt að halda kyrru fyrir í káetunni og bíða af okkur veður. En við þurfum líka að bíða eftir vindi, jafnvel dögum saman, ef við erum olíulaus. Erfiðleikastig siglingar fer ekki eftir því hvað við siglum í marga daga, heldur hvernig er í sjóinn og hversu mikið við getum sofið. Ef við erum bara tvö þá þarf alltaf annað okkar að vera á vakt til að fylgjast með radar, bátum, ís, vélinni og fleiru, en við notum seglin eins oft og mögulegt er, því það er augljóslega dýrara að nota vélina. En það er mikil vinna að setja upp seglin og taka þau niður, svo við notum þau meira á lengri siglingum, vélina frekar þegar við erum nálægt ströndum lands.“

Þau eru bæði menntaðir líffræðingar og störfuðu sem slíkir áður en þau fóru í siglingalífið og Fred vann líka sem sölumaður véla sem tengjast siglingum. Þau segjast kunna afar vel við hinn siglandi lífsstíl.

„Við getum alltaf fært okkur um set, ef okkur líkar ekki veðrið eða fólkið þá bara siglum við eitthvað annað. Þessum lífsmáta fylgir mikið frelsi sem við kunnum að meta. Tíminn er annar um borð í skútu og maður þarf að vera mjög sveigjanlegur, en frelsið er stærsti kosturinn. Nafn skútunnar, Fredoya, er samsett úr nöfnum okkar og það merkir einmitt frelsi.“

Fimmtán þúsund vinnustundir

Skútan Fredoya er gerð úr áli og Fred smíðaði hana sjálfur frá grunni, ásamt nokkrum vinum sínum. Fimmtán þúsund vinnustundir liggja í skútunni. „Við vildum byggja skútu sem gæti siglt þar sem væri ís á hafi, og þess vegna er hún sérstaklega styrkt. Hún vegur um 30 tonn þegar hún er fullfermd, þar af eru tvö tonn dísilolía, eitt tonn af vatni, eitt tonn af mat, eitt tonn af öðrum búnaði.“ Fyrir áhugasama siglingakappa, má benda á að á heimasíðu Freds og Frédo má sjá næstu siglingaleiðir, vilji karlar eða konur slást með í för: www.fredoya.com.

Þessi ísbjörn varð á vegi þeirra og vildi koma um …
Þessi ísbjörn varð á vegi þeirra og vildi koma um borð.
Hér eru þau á siglingu á skútunni sinni milli hrikalegra …
Hér eru þau á siglingu á skútunni sinni milli hrikalegra ísjaka við Grænlandsstrendur.
Fred og Frédo heima í skútunni Fredoya í Reykjavíkurhöfn.
Fred og Frédo heima í skútunni Fredoya í Reykjavíkurhöfn. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
Stundum getur þurft að klífa mastrið háa ef eitthvað bjátar …
Stundum getur þurft að klífa mastrið háa ef eitthvað bjátar á.
Þau hafa siglt um heimshöfin árum saman og búa núorðið …
Þau hafa siglt um heimshöfin árum saman og búa núorðið í skútunni sinni.
Norðurslóðir heilla frönsku hjónin.
Norðurslóðir heilla frönsku hjónin.
Frönsku skútuhjónin Fred og Fredó við Reykjavíkurhöfn.
Frönsku skútuhjónin Fred og Fredó við Reykjavíkurhöfn. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert