Fæðingartíðnin í sögulegu lágmarki

Á undanförnum árum hefur fæðingartíðni hér á landi lækkað og fór í fyrra niður í 1,8 börn á hverja konu, en til að viðhalda mannfjölda til langs tíma er horft til þess að hver kona þurfi að fæða 2,1 barn á ævinni. Á sama tíma hafa hámarksgreiðslur úr fæðingarorlofssjóði lækkað mikið á raunvirði, en frá árinu 2005 nemur lækkunin um 60% og frá árinu 2009 er lækkunin 30%. Ein afleiðing þessarar lækkunar er að feður taka í minna mæli fæðingarorlof. Þetta segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur BSRB, en samtökin í samstarfi við ASÍ eru nú að ráðast í sameiginlegt átak fyrir bættu fæðingarorlofskerfi.

Vilja 12 mánaða orlof og hámarkið í 600 þúsund

Sonja segir að krafa BSRB og ASÍ sé að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði, setja þak á greiðslur úr fæðingarorlofssjóði í 600 þúsund og hafa greiðslurnar óskertar upp að 300 þúsund og 80% eftir það.

Í dag fá foreldrar sameiginlegan rétt til 9 mánaða orlofs þar sem hvort foreldri hefur 3 mánuði og til viðbótar 3 mánuði sem hægt er að skipta á milli foreldranna. Þakið á greiðslur úr fæðingarorlofssjóði er í dag 370 þúsund krónur og foreldrar fá 80% af meðallaunum sínum greidd upp að því marki.

Stysta orlofið og næstlægstu greiðslurnar

Sonja segir að ef horft sé til Norðurlandanna sé Ísland með stysta fæðingarorlofið og næstlægstu greiðslurnar, en aðeins Danmörk er með lægri greiðslur. Segir hún að reynsla Danmerkur og Íslands sé að þegar hámarksgreiðslur séu lægri séu feður ekki að nýta sér rétt sinn eins vel og í hinum löndunum.

Hámarksgreiðslur lækkuðu mikið í hruninu og hafa staðið þannig síðan.
Hámarksgreiðslur lækkuðu mikið í hruninu og hafa staðið þannig síðan. Graf/mbl.is

Árið 2000 voru sett ný lög um fæðingarorlofssjóð og segir Sonja að þar hafi verið komið á mjög góðu kerfi. Þar hafi verið horft til þess að ná jafnrétti milli foreldra og það hafi skilað sér. Svo hafi lögin verið endurnýjuð nokkrum sinnum, en við hrunið hafi verið ákveðið að skerða hámarksgreiðslurnar. Segir Sonja að afleiðingin sé að feður nýti sinn rétt síður, en 40% færri feður fullnýta rétt sinn og 80% feðra taka eitthvert orlof, meðan hlutfallið hafi verið 90% árið 2008. Síðan eftir hrun hafa hámarksgreiðslur úr sjóðnum haldist nokkuð jafnar á raunvirði.

Fæðingartíðnin í sögulegu lágmarki

„Fæðingartíðnin er komin í sögulegt lágmark, hún hefur aldrei mælst lægri hér,“ segir Sonja og bætir við að fæðingarorlofskerfið sé ekki að tryggja það sem það eigi að gera. „Það er búið að eyðileggja það,“ segir hún. Bendir hún á að haldi fæðingartíðnin áfram að lækka verði erfitt að halda uppi samfélagi í núverandi mynd, bæði þegar kemur að störfum sem og að viðhalda lífeyriskerfinu.  „Ríki og sveitarfélög myndu ekki hafa bolmagn til að halda uppi sömu þjónustu og nú,“ segir Sonja.

BSRB og ASÍ tóku á kjörtímabilinu þátt í vinnu starfshóps um framtíð fæðingarorlofsmála sem velferðarráðuneytið stóð fyrir. Í mars var skýrslu skilað og í framhaldinu birti ráðherra frumvarp sem felur í sér þær breytingar sem BSRB og ASÍ leggi núna áherslu á. Ekkert hefur þó orðið af því að frumvarpið sé lagt fram á Alþingi og segir Sonja að það sé vilji félaganna að málið sé klárað fyrir þinglok. Þá vilji félögin einnig sjá framtíðarsýn frambjóðenda fyrir komandi kosningar þegar kemur að fæðingarorlofsmálum og hvort bregðast eigi við þessum skerðingum.

Frumvarpið var lagt fram til umsagnar af ráðuneytinu 12. ágúst og var umsagnarfrestur til 23. ágúst.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur BSRB.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur BSRB.

Foreldrar hvattir til að deila reynslu sinni

Vegna þessa hafa samtökin farið í sameiginlegt átak og er meðfylgjandi myndband eitt af þremur sem birt verða á næstu dögum. Samhliða því segir Sonja að opnuð verði Facebook-síða þar sem foreldrar verði hvattir til að deila sögu sinni af fæðingarorlofsmálum. Segir hún tölfræði liggja fyrir, en að félögin hafi einnig viljað fá reynslusögurnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert