Líkamshiti konunnar mældist 35,3 gráður

Maðurinn var handtekinn strax um nóttina á heimili sínu.
Maðurinn var handtekinn strax um nóttina á heimili sínu. mbl.is/Árni Sæberg

Konan sem flutt var með sjúkraflugi frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur að morgni laugardags, og grunur leikur á að brotið hafi verið gegn kynferðislega, fannst nakin með mikla áverka í andliti við hlið fata sinna. Líkamshiti hennar mældist 35,3 gráður og segir í áverkavottorði að hún hafi verið „afmynduð í framan“.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í reifun atburða í úrskurði Héraðsdóms Suðurlands, sem Hæstiréttur felldi úr gildi fyrr í dag og ákvað að karlmaður, sem grunaður er um verknaðinn, skyldi hnepptur í gæsluvarðhald.

Vitni er þar sagt hafa séð mann, dökkklæddan og reykjandi, ganga í burtu þegar þann einstakling bar að sem svo tilkynnti lögreglunni um aðstæður, klukkan 05.13, og hlúði að konunni.

Áfengismælir sýndi 1,20 prómill

Haft er eftir greinargerð lögreglustjóra að veitingamaður á veitingastað í bænum hafi hringt á lögreglu rúmum hálftíma áður, klukkan 04.39, og tilkynnt henni að sá grunaði væri í átökum við konuna fyrir utan staðinn. Vegna anna hafi lögregla hins vegar ekki getað sinnt tilkynningunni.

Rúmum klukkutíma síðar, klukkan 05.45, hafi lögregla farið að heimili þess grunaða og hitt þar fyrir sambýliskonu hans, sem greindi lögreglu frjá því að ekki væri langt síðan hann hefði komið heim. Var hann handtekinn í kjölfarið og látinn blása í áfengismæli, sem sýndi 1,20 prómill. Hafi hann þá kannast við að hafa átt í átökum við kvenmann fyrir utan veitingastaðinn, en hún hafi ætlað að valda þar skemmdum og því hefði hann „tekið hana niður“.

Lögreglan handtók manninn á heimili sínu í Vestmannaeyjum.
Lögreglan handtók manninn á heimili sínu í Vestmannaeyjum. mbl.is/GSH

Talið að sparkað hafi verið í höfuð konunnar

Fram kemur að læknir hafi talið að sparkað hafi verið í höfuð konunnar, miðað við þá áverka sem hún hafði í andliti. Á upptökum sjáist hvar hún og sá grunaði eiga í átökum fyrir utan veitingastaðinn.

„Þar megi sjá hvar kærði taki brotaþola taki og ýti henni henni niður tröppur við inngang staðarins þar sem þau hafi verið í hvarfi frá myndavélinni í u.þ.b. 9 mínútur. Þá komi nokkra sekúndna skemmd í myndbandið, en síðan sjáist þegar hurð við inngang staðarins lokast, sakborningur gengur í burtu, mígur upp við vegg og gengur í austur inn [...]“ segir í úrskurðinum.

Þá segir í greinargerð lögreglustjóra að illa hafi gengið að fá frásögn brotaþola. Hafi hún fram til þessa neitað að gerð verði á henni réttarlæknisfræðileg skoðun.

Með höfuðið ofan í steyptum öskubakka

Framburður vitna er þá rakinn.

Þar segir að dyravörður á staðnum hafi lýst því að annar maður hafi greint honum frá því að hafa séð mann kýla konu fyrir utan staðinn. Hann hafi því farið út og þá séð þann grunaða standa yfir brotaþola.

„Hafi hann haldið höndum hennar fyrir aftan bak, brotaþoli verið á hnjánum með andlit eða höfuð ofan í steyptum öskubakka sem þar sé. Kvaðst vitnið hafa sagt kærða að láta konuna í friði. Kærði hafi sleppt brotaþola, hún fallið á jörðina, staðið upp og gengið í burtu. Vitnið hafi lýsti háttseminni með þeim orðum að kærði hafi verið að kvelja brotaþola,“ segir í úrskurðinum.

Hæstiréttur felldi úr gildi úrskurð Héraðsdóms og ákvað að maðurinn …
Hæstiréttur felldi úr gildi úrskurð Héraðsdóms og ákvað að maðurinn skyldi hnepptur í varðhald. mbl.is/Kristinn

„Þarna er hún“

Annað vitni greindi frá því að það hafi setið inn í bifreið sinni klukkan 05.00. Þá hafi komið maður að hliðarrúðunni ökumannsmegin og spurt vitnið hvort það hafi séð stelpu, sem vitnið kvaðst hafa neitað. Þá hafi maðurinn kíkti inn í bíl vitnisins. Vitnið kvaðst hafa séð stúlku á gangi við hús og maðurinn þá sagt „þarna er hún“, og gengið rakleiðis á eftir stúlkunni.

Enn annað vitni og íbúi við götuna segist hafa verið vakandi og heyrt öskur og grát konu og farið út í glugga og séð hvar nakin kona lá á götunni og hafi maður staðið yfir henni. Hann hafi verið dökklæddur. Kvaðst vitnið hafa horft á eftir manninum þegar hann gekk í burtu.

Blóðug um kynfæri og með áverka

Í áverkavottorði læknis, sem tók á móti brotaþola, segir að hún hafi verið köld og í annarlegu ástandi.

„Hún hafi verið aggiteruð, gefið mjög óljósa sögu, hafi hreyft alla útlimi, skolfið af kulda, en þar sem hún hafi verið ósamvinnuþýð hafi ekki tekist að mæla hjá henni hita. Strax hafi verið byrjað að hita brotaþola og verkjastilla, og róa með morfín og stesolid. Hiti hafi þá mælst 35,3 gráður.

Dælt hafi verið í hana upphituðu saltvatni í æð. Samkvæmt vottorði hafi brotaþoli verið með mikla áverka í andliti og segir í vottorðinu að brotaþoli hafi  í raun verið afmynduð í framan sökum þess hversu marin hún var.

Í vottorðinu segir að hún hafi verið blóðug um kynfæri en ekki var gerð nánari skoðun á kynfærum. Grunur hafi verið um andlitsbrot og ekki hægt að útiloka alvarlega áverka á miðtaugakerfi auk þess sem hún hafi fundist nakin, hypothermísk og með áverka á kynfærum, og því hafi læknir ákveðið að óska eftir þyrlu til að flytja konuna til aðhlynningar á LSH þar sem fram færi réttarlæknisfræðileg skoðun,“ segir í úrskurðinum.

Gæsluvarðhaldið stendur fram til laugardagsins 24. september.
Gæsluvarðhaldið stendur fram til laugardagsins 24. september. mbl.is/Árni Sæberg

Getur varðað allt að 16 ára fangelsi

Meint brot mannsins eru sögð heyra undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, stórfelld líkamsárás sem hafi verið sérstaklega hættuleg vegna þeirrar aðferðar sem beitt hafi verið og einnig vegna þeirrar aðferðar að skilja við brotaþola nakta og illa haldna úti á götu.

Brot hans heyri því einnig undir 1. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga, sem hættubrot með því að hafa komið brotaþola í þannig ástand, að hún var án bjargar og einnig með því að hafa yfirgefið hana í alvarlegu ástandi.

„Enn fremur er mögulegt kynferðisbrot til rannsóknar enda fannst konan nakin, blóðug um kynfæri og með áverka eins og fram kom í læknisvottorði. Brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, getur varðað allt að 16 ára fangelsi. Brot gegn 1. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga, getur varðað fangelsi allt að 8 árum. Brot gegn 194. gr. almennra hegningarlaga, getur varðað allt að 16 ára fangelsi.“

Eins og áður kom fram úskurðaði Hæstiréttur manninn í gæsluvarðhald, og stendur það fram til laugardagsins 24. september.

Fréttir mbl.is:

Sögð hafa fundist nakin í húsgarði

Grunaður um kynferðisbrot

Úrskurðaður í gæsluvarðhald

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert