Íslenskri stúlku nauðgað í Danmörku

mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Fimmtán ára gamalli íslenskri stúlku var nauðgað í bílskúr í Vollsmose-hverfinu í Óðinsvélum í júlí í fyrra. Tveir ungir menn, 15 ára og 20 ára, voru í gær fundnir sekir um nauðgunina en refsingin verður kveðin upp í málinu í október. Pressan greindi frá þessu í morgun en fjallað er um málið í Dagens í gær. 

Í Dagens kemur fram að framburður stúlkunnar sé afar trúverðugur og greinargóður, annað en það sem segja má um þá ákærðu, segir dómarinn í héraðsdómi í Óðinsvéum í gær.

Ungu mennirnir neituðu báðir sök og sögðu báðir fyrir dómi að hún hefði haft mök við þá og þann þriðja að eigin vilja þann 9. júlí í fyrra.

Stúlkan var gestkomandi á heimili ættingja og hafði skömmu áður farið út til þess að kaupa sígarettur. Þar hafði hún spjallað við mennina tvo. Þeir fóru með hana í bílskúrinn og sögðu að þeir létu hana fá pakka af sígarettum þar. Tvímenningarnir hringdu í félaga sinn og sögðu honum að kaupa sígarettur, síðan stæðu honum kynmök til boða. Stúlkan skildi ekki samtalið þar sem það fór fram á dönsku.

Fram kom í máli stúlkunnar fyrir rétti að í bílskúrnum hefði hún verið neydd til munnmaka og annarra maka við 15 ára gamla piltinn. Sá tvítugi lýsti upp bílskúrinn með vasaljósi í farsíma sínum svo pilturinn sæi hvað hann væri að gera þegar hann beitti stúlkuna kynferðislegu ofbeldi. Samkvæmt frétt Dagens sparkaði stúlkan ítrekað í ofbeldismanninn og sagði nei á meðan ofbeldið stóð yfir.

Beðið er niðurstöðu geðrannsóknar yfir yngri manninum, en hann var sýknaður af nauðgun á 17 ára gamalli stúlku í Óðinsvéum í nóvember í fyrra. Þar þótti framburður stúlkunnar ekki nægjanlega skýr svo hægt væri að sakfella hann fyrir nauðgun.

Refsing yfir mönnunum tveimur verður kveðin upp 13. október.

Dagens

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert