Þungir dómar í fíkniefnamáli

Mennirnir voru dæmdir fyrir innflutning á 19,5 kílóum af amfetamíni …
Mennirnir voru dæmdir fyrir innflutning á 19,5 kílóum af amfetamíni og 2,6 kílóum af kókaíni frá Hollandi. Júlíus Sigurjónsson

Fjórir karlmenn voru í dag dæmdir í fimm til átta og hálfs árs fangelsi fyrir stórfelldan innflutning á fíkniefnum til landsins. Voru þeir fundnir sekir um að flytja inn 19,5 kíló af amfetamíni og 2,6 kíló af kókaíni frá Hollandi.

Mennirnir sem um ræðir heita Jeffrey Felice Angelo Uyleman (5 ára dómur), Peter Schmitz (5 ára dómur), Baldur Guðmundsson (8 ára dómur) og Davíð Berndsen Bjarkason (8 ára og 6 mánaða dómur).

Málið fékk talsverða athygli eftir að fjölskylda Angelo í Hollandi hóf leit að honum meðan hann sat í einangrun hér á landi vegna málsins.

Í dómi Héraðsdóms Reykjaness kemur fram að Hollendingarnir tveir hafi einvörðungu komið að innflutningi efnanna meðan Baldur og Davíð séu sakfelldir fyrir að hafa lagt á ráðin um innflutning fíkniefnanna og fjármagnað að hluta kaup á þeim og kostnað við innflutning.

Kom með Norrænu til landsins

Segir að þeir séu allir fundnir sekir um þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í ákæru, en þar er lýst hvernig Angelo hafi komið með fíkniefnin til Íslands frá Hollandi. Voru þau falin í sérútbúnum geymsluhólfum í bifreið sem hann kom með frá Danmörku með Norrænu.

Keyrði Angelo bifreiðina frá Seyðisfirði til Hafnar í Hornafirði og þaðan áfram til Keflavíkur. Flug hann svo af landi brott en kom til baka viku síðar og ók bifreiðinni að bænum Stóra-Knarrarnesi þar sem átti að fjarlægja fíkniefnin úr bifreiðinni.

Greiddu fyrir efnin með því að leggja inn á ikort

Var Angelo þar handtekinn ásamt Schmitz. Var Schmitz fundinn sekur um að hafa undirbúið og aðstoðað Angelo við innflutninginn og séð um að bóka gistignu fyrir þá og flug.

Baldur og Davíð eru fundnir sekir um að leggja á ráðin um innflutninginn og fjármagna þau. Kemur fram í ákæru að það hafi verið gert með greiðslum í reiðufé inn á 30 ikort að fjárhæð 9.090.000 krónur. Var tekið út af kortunum úr hraðbönkum víða í Evrópu á tveggja mánaða tímabili.

Baldur var jafnframt handtekinn stutt frá Stóra-Knarrarnesi þar sem hann fylgdist með móttöku fíkniefnanna. Fyrirhugað var að hann myndi veita þeim móttöku á bifreiðastæði Bláa lónsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert