Þurfa að breyta umhverfi fjölmiðla

Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans.
Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans. mbl.is/Styrmir Kári

Ef vilji er til að halda uppi frjálsri og gagnrýninni þjóðfélagsumræðu þarf eitthvað að breytast í rekstrarumhverfi fjölmiðla á Íslandi, að mati Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans. Hann telur þörf á einhvers konar aðgerðum ríkisins og fagnar því að stjórnmálamenn séu farnir að sýna því áhuga.

Sérstök umræða um stöðu fjölmiðla fór fram á Alþingi í gær, í annað skiptið á skömmum tíma. Þar sagði Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, að bæta þurfi rekstrarumhverfi fjölmiðla á Íslandi. Hluti af lausninni væri fólginn í virðisaukaskatti sem fjölmiðlar greiða nú. Þá þurfi að uppfæra regluverk um fjölmiðla til að endurspegla tækninýjungar sem hafa komið fram.

Frétt mbl.is: Vill bæta rekstrarumhverfi fjölmiðla

Þórður Snær hefur verið ritstjóri Kjarnans frá því að honum var hleypt af stokkunum árið 2013 en eins og aðrir fjölmiðlar á Íslandi hefur þessi litli vefmiðill þurft að berjast grimmt til að halda sér á floti.

„Allir einkareknir fjölmiðlar, nánast án undantekninga, eru reknir í tapi eða með mikilli skuldsetningu. Ef það er vilji til að halda uppi frjálsri, gagnrýninni og mikilvægri þjóðfélagsumræðu þá þarf eitthvað að breytast í þessu umhverfi. Ég held að það þurfi einhvers konar aðkomu ríkisins að því,“ segir ritstjórinn.

Ekki eins og önnur atvinnustarfsemi

Margir fjölmiðlar eru í vandræðum vegna mikillar skuldsetningar, að sögn Þórðar Snæs, en aðrir vegna þess að markaðurinn sé einfaldlega að breytast hratt. Áskriftarmódelið sé hætt að standa undir sér og auglýsingamarkaðurinn sé að breytast þannig að meira renni til erlendra aðila eins og Facebook, Google og Youtube.

„Á sama tíma eru allir að reyna að aðlaga sig að þessum breytingum og reyna að finna nýjar leiðir til þess að láta hlutina ganga upp. Í slíku árferði er náttúrulega erfitt að afla nægilega mikils rekstrarfjár til að standa undir þessu öllu,“ segir Þórður Snær.

Ýmsar leiðir hafa verið nefndar til að létta fjölmiðlum róðurinn, þar á meðal breytingar á virðisaukaskatti, mögulegar aðrar skattaívilnanir og jafnvel einhvers konar styrkjakerfi. Þórður Snær segir að öllum þessum leiðum hafi verið beitt á Norðurlöndunum og fullt tilefni sé til að skoða þær hér.

Merki vefmiðilsins Kjarnans sem hóf göngu sína árið 2013.
Merki vefmiðilsins Kjarnans sem hóf göngu sína árið 2013.

Þá segir hann að breytingar á starfsemi Ríkisútvarpsins gætu hjálpað til, sérstaklega breytingar á veru þess á auglýsingamarkaði. Hann leggur þó áherslu á að slíkri aðgerð þyrfti að fylgja ítarleg úttekt á hvaða áhrif það hefði á samkeppnisumhverfið svo allur hagurinn endaði ekki hjá einu eða tveimur fjölmiðlafyrirtækjum. Ekki hafi verið gerð nein almennileg úttekt samkeppnisyfirvalda á fjölmiðlamarkaðinum árum saman en á meðan hafi fjölmiðlar breyst mikið með tækni- og upplýsingabyltingu.

Þórður Snær fagnar því að málefni fjölmiðla hafi verið til umræðu á þingi en lýsir þó áhyggjum af því að sumir þingmenn hafi talað af því sem virtist vanþekking á eðli fjölmiðlastarfsemi.

„Mér fannst það til dæmis birtast í því að það kom fram í ræðustól að fjölmiðlastarfsemi var sett samhliða annarri atvinnustarfsemi. Hún er það ekki. Það er viðurkennt í flestum samfélögum að hún sé svo mikilvæg að hún lúti öðrum lögmálum. Það sé nauðsynlegt að það séu frjálsir og gagnrýnir fjölmiðlar til að veita stjórnvöldum aðhald og stuðla að vitrænni umræðu,“ segir hann.

Lækkun opinberra gjalda breytti miklu

Sjálfur telur Þórður Snær að einhvers konar skattaafslættir eða jafnvel niðurfelling myndi hjálpa fjölmiðlum mikið.

„Það þarf svo lítið til. Ég tala nú bara fyrir mig sem er að reka lítið fjölmiðlafyrirtæki að ef við myndum minnka það sem við greiðum í opinber gjöld þá myndi það hjálpa okkar rekstri mjög mikið,“ segir hann.

Þá telur hann vel mega skoða einhvers konar styrkjakerfi fyrir fjölmiðla sem eru með raunverulega starfsemi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

„Ég er auðvitað hræddur við slíkt kerfi því það væri afleit staða ef stjórnmálamenn gætu látið vendingar umræðu hvers tíma stýra því hvert slíkir styrkir myndu fara. Það þyrfti að vera vel um alla hnúta búið þannig að þetta yrði ekki háð duttlungum þeirra sem fara með valdið hverju sinni,“ segir Þórður Snær.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert