Vara fólk við haustlægðinni

Von er á fyrstu alvöru haustlægðinni.
Von er á fyrstu alvöru haustlægðinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Slysavarnafélagið Landsbjörg hvetur fólk til að fylgjast vel með veðurspá í kvöld og nótt því von er á fyrstu alvöru haustlægðinni, að því er fram kemur í tilkynningu frá félaginu.

„Íbúar á Suðausturlandi og sunnanverðum Austfjörðum eiga von á hellirigningu í kvöld, allt að 50mm úrkomu, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni. Þar er því nauðsynlegt að hreinsa vel frá niðurföllum til að forðast leka.

Í kvöld hvessir mjög á Vestfjörðum og við Breiðafjörð. Það má gera ráð fyrir stormi, eða vindhraða sem nemur 25 m á sekúndu. Fólk á þessu svæði er hvatt til þess að huga að lausum hlutum og vera ekki á ferð að óþörfu í kvöld og nótt. Á sunnanverðu Snæfellsnesi má gera ráð fyrir sterkum vindhviðum í kvöld og nótt, einnig undir Hafnarfjalli og á Kjalarnesi.

Veðrið gengur að mestu niður í nótt en með morgninum má gera ráð fyrir snarpri sunnanátt á Austurlandi sem gengur niður um hádegisbil.“

Veðurvefur mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert