Fyrsta alvöru haustlægðin

Það borgar sig að kippa regnhlífinni með á eftir.
Það borgar sig að kippa regnhlífinni með á eftir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrsta alvöru haustlægðin herjar á hluta landsmanna en það hefur verið stormur í alla nótt á Vestfjörðum og fór vindurinn í 28 metra á sekúndu í Æðey um tíma. Mjög mikil úrkoma hefur verið á Austurlandi og í gær mældist úrkoman 60 mm í Neskaupstað og 53 mm á Fáskrúðsfirði. 

Birta Líf Kristinsdóttir, vakthafandi veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að lægðamiðjan sé núna rétt norður af Langjökli en það er orðið mjög hvasst að sunnan en norðanáttin er ríkjandi á Norðvesturlandi. Það hefur rignt víðar heldur en á Austurlandi því á aðeins þremur klukkutímum í gærkvöldi mældist úrkoman á Siglufirði 30 mm. Á Ísafirði hefur frá miðnætti fallið 27 mm af regni og því víða mjög blautt.

Birta segir að það fari að lægja um hádegi og þá fari íbúar á Suðvesturlandi aðeins að finna fyrir lægðinni.

Veðurspá fyrir næsta sólarhring:

Norðan stormur NV-lands í fyrstu, en snýst í suðlæga átt og skúri með morgninum, hvassviðri eða stormur um tíma A-til, annars víða 8-15 m/s upp úr hádegi og léttir til um landið NA-vert. Hiti 5 til 13 stig, mildast N-til.

Austlæg átt 5-10 m/s á morgun og víða léttskýjað fyrir norðan, en skúrir syðra. Vaxandi norðaustanátt með rigningu SA-lands annað kvöld. Hiti breytist lítið.

Á föstudag:

Austlæg átt 5-10 m/s og víða léttskýjað fyrir norðan, en skúrir syðra. Hiti 5 til 11 stig. Vaxandi norðaustanátt með rigningu um suðaustanvert landið um kvöldið.

Á laugardag:
Norðaustlæg átt 5-13 m/s, en 10-18 norðvestan til. Víða rigning, en úrkomulítið suðvestanlands. Hiti 3 til 11 stig, svalast um landið norðanvert.

Á sunnudag:
Norðlæg átt 8-15 m/s, rigning með köflum og kólnar frekar fyrir norðan.

Á mánudag:
Norðlæg átt og rigning með köflum, en líkur á slyddu norðvestanlands. Þurrt að kalla suðvestan til. Hiti 1 til 10 stig, mildast með suðurströndinni.

Á þriðjudag og miðvikudag:
Útlit fyrir áframhaldandi norðlæga átt og rigningu með köflum, en víða bjart sunnan heiða. Hlýnar lítillega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert