Getur ekki beðist afsökunar á árásum fjölmiðla

Sigmundur sagði ásakanirnar hafa reynst tilhæfulausar.
Sigmundur sagði ásakanirnar hafa reynst tilhæfulausar. Skjáskot/RÚV

Oddvitar þeirra tólf flokka sem boðað hafa framboð til Alþingiskosninga mætast í fyrsta skipti í sjónvarpskappræðum Ríkissjónvarpsins í kvöld.

Hófu spyrlar Ríkissjónvarpsins útsendinguna á því að spyrja Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Framsóknarflokksins, hvort hann hefði hugsað sér að biðjast afsökunar á því að hafa átt eignir í aflandsfélagi.

Eiginkonan hafi gefið allt upp

Sigmundur Davíð sagði að hann gæti sem einstaklingur og stjórnmálamaður beðist afsökunar á mörgu. Hann gæti þó ekki beðist afsökunar á því að hafa orðið fyrir „ótrúlegri árás“ fjölmiðla, meðal annars Ríkisútvarpsins.

„Ég get ekki beðist afsökunar á því með hvaða hætti ákveðnir aðilar, meðal annars á vegum ykkar stofnunar,“ sagði Sigmundur og benti á spyrlana tvo, „gengu fram í þessu máli.“

„Eiginkona mín átti eignir sem voru skráðar í ákveðnu landi sem hefur aldrei verið skattaskjól,“ sagði Sigmundur og bætti við að eiginkona sín hefði aldrei skotið neinu undan, heldur gefið allt upp til íslenskra skattayfirvalda.

Bar sig saman við David Cameron

Bar hann umfjöllun um Wintris-málið við umfjöllun um aflandseignir David Cameron forsætisráðherra Breta, þar sem í því tilfelli hefðu verið færðar sönnu á að Cameron hefði haft hag af því fyrirkomulagi. Það ætti til dæmis ekki við í tilfelli hans sjálfs.

Sagði hann ásakanir á sínar hendur í málinu hafa eftir allt saman reynst tilhæfulausar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert