Skýrsla Vigdísar án númers

Vigdís Hauksdóttir.
Vigdís Hauksdóttir. mbl.is/Rax

Greinargerð Vigdísar Hauksdóttur um einkavæðingu bankanna hina síðari er ekki skýrsla í þinglegum skilningi þess orðs og fær hvorki þingskjalsnúmer né málsnúmer og verður ekki tekin fyrir á dagskrá þingsins.

„Það verður að greiða á milli tvenns í þessu sambandi. Annars vegar er það skýrsla í skilningi þingskapa,“ segir Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, í samtali við mbl.is, en Ríkisútvarpið greindi fyrst frá þessu.

„Það er þingskjal með þingskjalsnúmeri og málsnúmeri og kemst svo á dagskrá þingsins og er til umræðu í Alþingi. Um þær skýrslur eru nokkur ákvæði í þingsköpunum. Það eru fyrst og fremst skýrslur ráðherra, en líka skýrslur nefnda, þetta eru skýrslur í þinglegum skilningi,“ bætir Helgi við og segir að skýrsla geti líka átt við annað:

„Það merkir samantekt, greinargerð, erindi eða eitthvað slíkt. Alþingismaðurinn Vigdís Hauksdóttir hefur tekið saman mikið efni um einkavæðingu, sem hún kallar einkavæðingu bankanna hina síðari. Hún hefur kosið að nota orðið „skýrsla“ en hefði alveg eins getað notað orð eins og greinargerð eða erindi. Kannski notaði hún orðið skýrsla því að ætlunin var að leggja plaggið fram sem þingskjal, eða fá meirihluta nefndarinnar til að standa að því eins og hann ætti rétt á. Það hefur breyst. Það verður því að líta á orðið „skýrsla“ í fyrirsögn sem notað í almennri merkingu.“

Hafa menn misst heilan dag úr fréttum?

Þingmaðurinn Vigdís Hauksdóttir er undrandi á þessum ummælum og finnst eins og menn séu stöðugt að velta sér upp úr liðnum atburðum.

„Það mætti halda að menn hafi missti úr heilan dag í fréttum. Það var ákveðið í gær, og ég hélt að það hefði ekki farið framhjá neinum, að ég væri að vísa skýrslunni í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd,“ segir Vigdís í samtali við mbl.is.

„Ég er búin að biðja um fund með forseta þingsins til að fara yfir málin af því að skrifstofustjóri þingsins tjáir sig um þetta mál. Ég hélt nú að embættismenn þingsins ættu að hafa mesta yfirsýn um hvað er að gerast í þinginu,“ bætir Vigdís við og er ekki ánægð með ummæli skrifstofustjóra:

„Þetta er beinlínis rangt fréttaefni miðað við það hvar ferill málsins er. Ég veit ekki á hvaða leið RÚV er og hvað það er að verja. Þeir geta ekki tekið þetta mál efnislega til umfjöllunar heldur hanga í ekki-fréttum og draga fólk fram og spyrja um liðna atburði þegar málið er statt annars staðar. Ég er hætt að botna í því hvernig fjölmiðlar taka á þessu máli.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert