Dómarinn keypti ekki útskýringarnar

Talsvert magn af sterum fundust í fórum mannsins. Myndin er …
Talsvert magn af sterum fundust í fórum mannsins. Myndin er úr safni. mbl.is/Júlíus

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt 21 árs gamlan mann í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að selja og dreifa fíkniefnum og sterum. Dómstóllinn hefur gert efnin sem fundust í hann fórum upptæk auk ætlaðs ávinnings mannsins af sölunni, samtals 568.000 krónur.

Maðurinn, sem er fæddur árið 1995, hefur ekki áður sætt refsingu.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu ákærði manninn í apríl fyrir tollalaga-, lyfjalaga- og fíkniefnabrot á árinu 2015, með því að hafa 3. ágúst í Hafnarfirði og Reykjavík haft í vörslum sínum, í sölu- og dreifingarskyni, 73,23 g af maríhúana og 70 ml af testosteron, 90 ml af nandrolon, 60 ml af sustanon, 60 ml af trenbolon, 100 töflur af danabol DS/methandrostenolone, 300 töflur af metyltestosteron, 50 töflur af oxandrolon, 120 töflur af tamoxifen og 400 töflur af winstrol depot/stanazolol sem lögregla fann við leit.

Fram kemur í dómnum, að maðurinn hafi játað sakarefni málsins að hluta, en hann viðurkenndi hafa verið með hin ólöglegu fíkniefni og stera í sinni vörslu. Hann neitaði því hins vegar að hafa verið með efnin í sölu- og dreifingarskyni.  

Framburður mannsins ótrúverðugur

Héraðsdómur segir að framburður mannsins hafi verið ótrúverðugur um marga hluti.

„Í fyrsta lagi ber að tiltaka að fíkniefni þau er hald var lagt á í bifreið ákærða voru í smelluplastpokum, sem tíðkanlegir eru við sölu- og dreifingu fíkniefna. Ákærði kvaðst hafa sett eigin fíkniefni í samskonar plastpoka til að geta betur fylgst með eigin neyslu. Þann framburð ákærða verður að telja ótrúverðugan.

Í annan stað fór fram rannsókn á farsíma ákærða. Þar komst lögregla á snoðir um myndir sem voru af fíkniefnum og sterum. Þær myndir kvaðst ákærði hafa tekið til að átta sig betur á hvaða efni hann ætti, auk þess sem hann gæti sýnt vinum sínum hvaða efni væru til. Þetta verður að telja sérstaklega ótrúverðuga skýringu af hálfu ákærða.

Í þriðja lagi hefur ákærði borið því við að hann hafi átt slík samskipti við viðskiptabanka sinn að hann hafi ekki viljað setja reiðufé er hann hafi verið með heima hjá sér inn á eigin reikninga. Frekar hafi hann viljað geyma þetta reiðufé heima hjá sér, en lögregla lagði þar hald á 511.000 krónur í litlum peningakassa. Umtalsvert frekara reiðufé fannst svo í íþróttatösku, í peysu ákærða og í hólfi milli sæta í bifreið hans.

Þær skýringar ákærða að hann hafi ekki treyst viðskiptabanka sínum verður einnig að telja ótrúverðugar þar sem hann hefði þurft að leita til þessa sama viðskiptabanka til að fá gjaldeyri til utanferðar sinnar, eftir að höft voru sett á fjármagnsflutninga á milli landa í kjölfar hins svonefnda efnahagshruns.

Loks er til þess að líta að ákærði hefur ekki viljað gefa upp nöfn þeirra einstaklinga sem átt hafi að tengjast málinu og gætu varpað ljósi á að fíkniefnin og sterarnir hafi ekki verið í vörslum ákærða í sölu- og dreifingarskyni. Þetta hefði þó verið honum í lófa lagið,“ segir í dómnum. 

Dómurinn taldi því hafið yfir allan vafa að maðurinn hefði haft bæði fíkniefnin og sterana í sínum vörslum í sölu- og dreifingarskyni. Þá niðurstöðu studdu skilaboð í farsíma mannsins sem veittu ótvíræðar vísbendingar um að hann hefði selt og dreift sterum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert