Hornsteinn að stöðvarhúsi

Hildur Ríkharðsdóttir og Einar Erlingsson aðstoðuðu forseta við Hornsteinslagninguna.
Hildur Ríkharðsdóttir og Einar Erlingsson aðstoðuðu forseta við Hornsteinslagninguna. Ljósmynd/Landsvirkjun

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, lagði hornstein að stöðvarhúsi Þeistareykjavirkjunar, við athöfn sem fram fór í dag. Hann naut aðstoðar Einars Erlingssonar staðarverkfræðings við múrverkið.

Bygging jarðvarmavirkjunar Landsvirkjunar á Þeistareykjum er komin vel á veg. Þar er verið að reisa 90 MW virkjun í tveimur áföngum. Stefnt er að því að ljúka fyrri áfanga haustið 2017 og þeim seinni á fyrri hluta árs 2018.

Jónas Þór Guðmundsson, stjórnarformaður Landsvirkjunar, sagði í ávarpi við athöfnina að bygging Þeistareykjavirkjunar markaði tímamót fyrir iðnað og atvinnustarfsemi á svæðinu, enda væri traust aðgengi að rafmagni forsenda fyrir uppbyggingu af því tagi sem hafin væri og fyrirhuguð á næstu misserum og árum.

Hörður Arnarson forstjóri sagði að virkjunin væri mikilvægur áfangi fyrir fyrirtækið sem hefði það hlutverk að hámarka afrakstur af þeim auðlindum sem því væri trúað fyrir, með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi. Með það í huga hefði fyrirtækið lagt mikið upp úr vandlegum undirbúningi og rannsóknum á svæðinu.

Kristján Þór Júlíusson, Hörður Arnarson, Guðni Th. Jóhannesson, Jónas Þór …
Kristján Þór Júlíusson, Hörður Arnarson, Guðni Th. Jóhannesson, Jónas Þór Guðmundsson og Bjarni Benediktsson. Ljósmynd/Landsvirkjun

Undirbúningsframkvæmdir hafa staðið yfir síðustu ár. Á síðasta ári hófst bygging stöðvarhúss og lagning gufuveitu. Jafnframt er unnið að byggingu annarra tilheyrandi mannvirkja og gufuöflun fyrir virkjunina. Þegar eru tilbúnar sjö vinnsluholur sem knýja munu aflvél fyrsta áfanga og verið er að bora fleiri holur til að ljúka gufuöflun fyrir annan áfanga virkjunarinnar.

Þeistareykjavirkjun mun sjá kísilveri PCC á Bakka við Húsavík fyrir orku en hún tengist einnig við landskerfið. Unnið er á fullu við hafnargerð og vegagerð á Húsavík til að tengja athafnasvæðið á Bakka við höfnina. Þá eru verktakar á vegum PCC að byggja verksmiðjuna sjálfa. Óvissa hefur verið síðustu vikur um lagningu háspennulína til að tengja virkjunina við kísilverið og landskerfið vegna deilna um lögmæti framkvæmdaleyfis sem Þingeyjarsveit veitti Landsneti. Framkvæmdir hefjast aftur af fullum krafti ef og þegar lög ríkisstjórnarinnar sem heimila lagningu línunnar verða að lögum frá Alþingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert