Páfagaukurinn Mr. Pitts fundinn

Mr. Pitts er kominn til síns heima.
Mr. Pitts er kominn til síns heima. Ljósmynd/Friðgeir Guðjónsson

Páfagaukurinn sem flaug inn í flugskýli Reykjavík Helicopters er kominn til síns heima í Skerjafirði eftir að eigandinn hafði samband við fyrirtækið seinnipartinn í gær.

Frétt mbl.is: Kannast þú við gaukinn?

„Máttur Facebook er ótrúlegur,“ segir Friðgeir Guðjónsson, framkvæmdastjóri Reykjavík Helicopters, ánægður með niðurstöðu málsins.

Hann segir að í raun hafi tveir páfagaukar sloppið frá eigandanum. Hinn fannst á leikskóla í Skerjafirði og var hann einnig á lífi.

Var horfinn um morguninn

Friðgeir greinir frá því að páfagaukurinn sem heimsótti þá á Reykjavíkurflugvöll á miðvikudagskvöld hafi verið horfinn þegar þeir mættu aftur aftur til vinnu í gærmorgun. „Við vorum í pínulitlu áfalli. Svo virðist sem hann hafi náð að stinga sér undir pínulítið gat á hurðinni,“ segir hann.

„Súperfugl“

Gaukurinn fannst aftur seint um kvöldið á vinnusvæði í Vestuvör í Kópavogi. Þangað hafði hann flogið langa leið í slæmu veðri. „Þetta er súperfugl,“ segir Friðgeir og hlær.

Starfsmaður þar hafði fundið hann og komið með heim. Konan hans hringdi þá í Reykjavík Helicopters og lét Friðgeir og félaga vita. Skömmu síðar hafði eigandi páfagauksins samband við þá og spurði um fuglinn sinn og fékk að vita að hann væri heill á húfi.

Fékk nafnið Mr. Pitts

Aðspurður kveðst Friðgeir hafa gefið fuglinum nafnið Mr. Pitts. Ekki samt í höfuðið á leikaranum Brad Pitt, sem er mikið í umræðunni þessa dagana, heldur á flugvélategundinni Pitts Special sem er tvívængja og iðulega notuð í listflugi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert