Segja forystu kennara hafa farið út fyrir umboð sitt

Norðlingaskóli.
Norðlingaskóli. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Kennarar og stjórnendur í nokkrum grunnskólum mótmæla eindregið undirritun samkomulags um samræmt lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn og telja að með undirritun þess hafi forysta KÍ farið út fyrir umboð sitt. Kennarar Norðlingaskóla telja sig óbundna af undirrituninni, enda fer hún gegn ályktun sem gerð var á 6. þingi Kennarasambands Íslands sem haldið var 1.-4. april 2014. Í sama streng taka kennarar og stjórnendur Vogaskóla og Selásskóla í áskorunum sem mbl.is hefur borist.

„Nú liggur fyrir að framtíðarlífeyrisréttindi nýrra starfsmanna verða skv. samkomulaginu skert, starfsævin lengd og ábyrgð vinnuveitanda á Lífeyrissjóði opinberra starfsmanna afnumin, án þess að niðurstaða hafi fengist í það hvað komi í staðinn og á hvern hátt laun milli opinbera og almenna vinnumarkaðarins verði jöfnuð,“ segir í ályktun frá kennurum og stjórnendum Norðlingaskóla.

„Það er ein af grunnforsendum jöfnunar lífeyrisréttinda að launakjör á milli markaða verði á sama tíma jöfnuð. Slíkt er alls ekki tryggt í samkomulaginu. Það er því ljóst að með samkomulaginu eru kjör kennara, sem slæm eru fyrir, gerð enn verri. Slíkt er óverjandi með öllu við þær aðstæður sem nú eru uppi í kjaramálum kennara.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert