Ættar- og örlagasaga Hólmfríðar sjókonu

Feðgin. Guðjón Jónsson, sonur Hólmfríðar, ásamt Guðrúnu, næstelstu dóttur sinni, …
Feðgin. Guðjón Jónsson, sonur Hólmfríðar, ásamt Guðrúnu, næstelstu dóttur sinni, árið 1925. Guðjón er hálfsextugur og Guðrún tæplega þrítug.

Langamma þeirra Ásgeirs og Sigrúnar Sigurgestsbarna kallaði ekki allt ömmu sína, eins og þau systkinin komust að raun um þegar þau kynntu sér sögu hennar. Hólmfríður Sveinsdóttir hét hún og er lykilpersónan í Hólmfríðar sögu sjókonu, nýútkominni ættar- og örlagasögu eftir þau systkinin.

Þótt Hólmfríður Sveinsdóttir væri þekkt víða um sveitir Rangárvallasýslu á sinni tíð fyrir einstakan dugnað og atorku vissu systkinin Ásgeir og Sigrún Sigurgestsbörn lengi vel fátt um þessa skörulegu langömmu sína. Þeim var að vísu kunnugt um að hún hefði frá því er hún var liðlega tvítug róið tólf vertíðir með þekktum aflaformanni frá brimóttum og háskalegum Landeyjasandi og síðar orðið fullgildur bóndi í kotinu Ormsvelli í Hvolhreppi.

„Slíkt var afar óvenjulegt um miðja 19. öld á tímum vistarbands og húsaga, sérstaklega þegar bláfátæk kona af alþýðuættum átti í hlut og aukinheldur einstæð móðir,“ segir Ásgeir, en þau systkinin eru höfundar bókarinnar Hólmfríðar sögu sjókonu, sem bókaforlagið Sæmundur gaf nýverið út.

„Sú hugmynd að skrifa um lífshlaup Hólmfríðar, sögu sem væri nokkurs konar ættar- og örlagasaga og fjallaði jafnframt um harðneskjuleg lífskjör og baráttuþrek íslenskrar alþýðu á þessum tíma, kviknaði eftir ættarmót árið 1991. Þar voru samankomnir afkomendur Guðjóns Jónssonar, afa okkar – einkasonar Hólmfríðar, og hafði Sigrún verið beðin um að taka saman nokkur atriði um Guðjón, börn hans og þrjár barnsmæður og það litla sem vitað var um foreldra hans; Hólmfríði Sveinsdóttur og Jón Jónsson, sem voru systrabörn,“ segir Ásgeir um tildrög bókarinnar.

Pistillinn sem þau systkinin fluttu í Stokkseyrarkirkju í upphafi ættarmótsins rúmaðist á þremur og hálfri blaðsíðu. Núna, aldarfjórðungi síðar, má segja að þau hafi bætt hundraðfalt um betur því bókin um Hólmfríði, forfeður hennar og -mæður sem og niðja er tæpar 350 blaðsíður og hefur að geyma 500 nöfn samkvæmt nafnaskrá.

Forvitin um ræturnar

„Forvitnin um forfeður okkar og -mæður knúði okkur til að gera þessari sögu frekari skil. Eins og algengt er hjá fólki sem komið er um og yfir miðjan aldur langaði okkur að leita að rótum okkar,“ segir Ásgeir og heldur áfram: „Við höfum bæði mikinn áhuga á ættfræði og sögulegum fróðleik og höfum verið að dunda okkur við þetta samhliða vinnu á kvöldin og um helgar í öll þessi ár, með hléum þó.Verkaskiptingin var nokkuð skýr, Sigrún safnaði heimildum og ég vann úr þeim og skrifaði söguna, í samráði við hana. Hún er gríðarlega öflugur grúskari og leitaði víða fanga, aðallega þó í Þjóðskjalasafni Íslands þar sem hún vann um árabil áður en hún lét af störfum vegna aldurs, en líka í kirkjubókum og víðar. Bókin byggist einnig töluvert á viðtölum við eldri kynslóðina í fjölskyldunni, fólk sem komið var á ní- og tíræðisaldur, til dæmis föður okkar, sem lést 96 ára gamall árið 2008, og gat veitt okkur ómetanlegar upplýsingar,“ segir Ásgeir og bætir við að þá hugmynd að handritið yrði að bók hafi fyrst borið á góma fyrir um það bil ári.

Sjálfur hefur Ásgeir, sem er sálfræðingur og stjórnsýslufræðingur að mennt og vinnur að málefnum fatlaðs fólks hjá Mosfellsbæ, skrifað tvær bækur um sögu bílaviðgerða á Íslandi og Félag bifvélavirkja, sem eru hluti af Iðnsögu Íslendinga.

„Upphaflega var meiningin að ljósrita eða koma handritinu með einhverjum hætti til fjölskyldunnar. Einhver stakk svo upp á að úr þessu yrði bók, en þar sem við vorum ekki viss um hvort efnið ætti erindi á almennan markað ráðfærðum við okkur við Bjarna Harðarson forleggjara sem taldi svo vera og því slógum við til.“

Einu sinni við karlmann kennd

Hólmfríður Sveinsdóttir fæddist árið 1830 og lést 1879. Fertug að aldri eignaðist hún sitt eina barn, fyrrnefndan Guðjón, með náfrænda sínum, Jóni Jónssyni, kvæntum bónda á næsta bæ. Þrátt fyrir mikið grúsk fann Sigrún þess hvergi stað að langamma þeirra systkina hefði fyrr eða síðar verið við karlmann kennd. Afkomendur hennar eru orðnir á fjórða hundrað, enda var Guðjón kynsæll maður, sem eignaðist sex börn með þremur konum. Þótt Hólmfríður sé lykilpersónan er mikið persónugallerí í sögunni, sem hefst undir Heklurótum og berst þaðan til hinnar ungu Reykjavíkur. Öðrum þræði hverfist hún um lífshlaup Guðjóns og alls þess fólks sem að honum stóð aftur og fram í ættir og er að mörgu leyti samtímaheimild um lífshætti og félags- og efnalegar aðstæður fólks á þessum tíma.

„Við hikuðum samt ekki við að láta flakka með ýmsar skemmtilegar sögur og grípa til útúrdúra þar sem okkur þótti vel fara á – segja söguna sögunnar vegna ef hún á annað borð var sönn,“ upplýsir Ásgeir og harðneitar að bókin sé með skáldlegu ívafi.

„Þótt heimildir um Hólmfríði væru af skornum skammti tókst Sigrúnu með undraverðum hætti að grafa upp alls konar fróðleik um hana og líka föður hennar, Svein Magnússon, sem var þrekmaður mikill. Við hann er kennt Sveinsgil sem liggur samsíða Jökulsárgili suðaustur af Landmannalaugum, en nafngiftin helgast af því að Sveinn klöngraðist alla leið þangað í leitum að hausti, fyrstur manna. Hólmfríður var eitt fjórtán barna Sveins og Ingveldar Jónsdóttur, en sjö þeirra dóu í frumbernsku. Sjálf lést hún tæplega fimmtug þegar Guðjón var aðeins níu ára, en hafði þá gert ráðstafanir til að koma honum í fóstur til Gests, bróður síns, bónda í Flagbjarnarholti í Landsveit. Þar ólst hann upp við gott atlæti til fullorðinsára, var verkamaður og sjómaður í mörg ár, brúarvörður við Þjórsárbrú vegna sauðfjárveikivarna og viðgerðarmaður prímusa á Stokkseyri.“

Saga þjóðar á umbrotatímum

Eins og gefur að skilja eru hvorki til myndir af söguhetjunni Hólmfríði né teikningar. Ásgeiri segir svo hugur að hún hafi verið nánast karlmenni að burðum, kappsöm og þrekmikil. „Langamma hafði fíngerða rithönd, sem sést á forsíðu bókarinnar, en Sigrún fann undirskrift hennar á kvittun frá árinu 1874. Þá hafði hún leigt hest sinn fyrir fjóra ríkisdali í föruneyti Kristjáns IX. Danakonungs þegar hann kom hingað til lands og afhenti Íslendingum nýja stjórnarskrá.“

Þá frásögn má efalítið flokka sem einn af mörgum útúrdúrum sögunnar um Hólmfríði og ættboga hennar. Slíkir útúrdúrar eru margir, enda kappkostuðu höfundar að gæða lífi það sem í grunninn voru oft þurrar ættfræðilegar upplýsingar og setja þær í samhengi við sagnfræðilegan fróðleik. Hólmfríðar saga sjókonu er saga þjóðar á umbrotatímum þegar Ísland þróaðist úr frumstæðu bændasamfélagi til nútímahátta.

„Sumar söguhetjurnar lifðu í gjörólíku samfélagi en margir sem nú eru komnir á efri ár þekktu þetta fólk,“ segir Ásgeir og rifjar upp kynni sín af Guðjóni afa sínum, sem fæddist árið 1870. „Í mínum huga var hann léttur og kátur karl, enda hafði hann orð fyrir að vera greindur, spaugsamur og hagmæltur. Ég var fimm ára þegar hann lést 1952 og hlýt því að hafa verið aðeins yngri þegar ég horfði á hann raka sig fyrir framan spegil og fylgdist mjög spenntur með hvort hann ætlaði líka að raka af sér yfirskeggið sem hann bar að jafnaði.“

Svona líður tíminn.

„óg. húsm.“

Í kaflanum Vistarskyldan og húsaginn í Hólmfríðar sögu sjókonu segir m.a.: „Hólmfríður Sveinsdóttir, Guðjón sonur hennar og þorri þess fólks sem nefnt er til sögunnar á þessum síðum er oftast skráð sem vinnumenn eða vinnukonur fram eftir 19. öldinni. Undantekning er þó búskapartíð Hólmfríðar á Ormsvelli; í manntali 1870 er hún skráð þar sem „óg. húsm.“ sem væntanlega stendur fyrir „ógift húsmóðir“. [...] Samkvæmt lögum var öllum sem orðnir voru 16 ára að aldri, og ekki bjuggu í foreldrahúsum eða stóðu fyrir eigin heimili, skylt að ráða sig í vistir hjá bændum sem vinnumenn eða vinnukonur. Þetta var nefnt vistarskylda.

[...] Búskapur Hólmfríðar Sveinsdóttur á Ormsvelli á árunum 1868-1875 er augljóst dæmi um vinnuhjú sem freistaði þess af litlum efnum að brjótast undan vistarskyldunni og verða sjálfs sín herra – þó ekki væri nema um hríð.“

Undirskrift Hólmfríðar Sveinsdóttur á kvittun fyrir hest sem hún leigði …
Undirskrift Hólmfríðar Sveinsdóttur á kvittun fyrir hest sem hún leigði föruneyti Kristjáns IX. Danakonungs um Suðurland árið 1874. Sérfróðir telja að hún hafi skrifað allan textann.
Staður og Bjarnastaðir á Grímsstaðaholti.
Staður og Bjarnastaðir á Grímsstaðaholti.
Bílar Páls og Steindórs á Selfossi
Bílar Páls og Steindórs á Selfossi
Forvitni um forfeður sína og -mæður knúði systkinin Sigrúnu og …
Forvitni um forfeður sína og -mæður knúði systkinin Sigrúnu og Ásgeir Sigurgestsbörn til að skrifa sögu langömmu sinnar, sjókonunnar og bóndans Hólmfríðar Sveinsdóttur, og alls hennar ættboga. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert