Yfir þrjú þúsund skrifuðu undir

Afgönsku mæðgurnar Torpikey og Maryam.
Afgönsku mæðgurnar Torpikey og Maryam. Ljósmynd/Guðný Erna Bjarnadóttir

Undirskriftalisti vegna máls afgönsku mæðgnanna sem hafa sótt um hæli hér á landi verður afhentur í innanríkisráðuneytinu í dag.

Alls hafa 3.303 einstaklingar, karlar og konur alls staðar að af landinu og Íslendingar búsettir erlendis skorað á íslensk stjórnvöld að veita mæðgunum Torpikey Farrash og Mariam Raísi hæli.

Frétt mbl.is: „Brjálæði“ að senda þær aftur til baka 

Hrafnhildur Gunnarsdóttir, ein þeirra sem stóðu fyrir undirskriftasöfnuninni, er ánægð með hversu margir skrifuðu undir. „Mér skilst að þessir undirskriftalistar sem hafa verið í gangi í svona málefnum hafi verið að fá á bilinu 500 til 700 undirskriftir,“ segir Hrafnhildur.  „Það er gott ef fólk lætur sig þetta mál skipta. Þetta er um 1% af þjóðinni.“

Vefsíða undirskriftasöfnunarinnar

Spurð hvort hún sé vongóð um mæðgurnar fái hæli á Íslandi segist hún í það minnsta ánægð með að hreyfing hafi komist á málið. „Fyrir mér vakir það persónulega að tryggja að þetta mál verði skoðað ofan í kjölinn og reynt að komast að sanngjarnri niðurstöðu. Ég treysti stjórnvöldum til þess.“

74% telja að stjórnvöld eigi að gera meira

Í yfirlýsingu sem Hrafnhildur, Hildigunnur Sverrisdóttir, Guðbjörg Lilja Hjartardóttir, Magnea Marinósdóttir, Ingibjörg Stefánsdóttir sendu fjölmiðlum kemur fram að hinar góðu viðtökur við undirskriftasöfnuninni séu í samræmi við niðurstöður skoðanakönnunar sem Amnesty International lét nýverið gera. Þar kom fram að 74% Íslendinga telja að íslensk stjórnvöld eigi að gera í meira til að hjálpa fólki á flótta.

Mótmælt fyrir utan innanríkisráðuneytið.
Mótmælt fyrir utan innanríkisráðuneytið. mbl.is/Styrmir Kári

Hælisleitendur í fjögur ár

Torpikey og Maryam eru á flótta vegna langvarandi stríðsátaka, kúgunar og ofbeldis í garð kvenna í heimalandi og þess að þær tilheyra minnihlutahópum. Þær hafa verið hælisleitendur í Evrópu í fjögur ár. „Enn hafa þær þó ekki fengið lausn sinna mála. Biðin tekur bæði á andlega og líkamlega heilsu þeirra og því ekki hægt að bíða lengur eftir jákvæðu svari,“ segir í tilkynningunni.

Sagðar vera í hættu

Þar segir einnig að Torpikey og Maryam séu í hættu samkvæmt skilgreiningu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. „Það eru konur sem eru í sérstakri hættu á að verða fyrir kynferðislegu áreiti, misnotkun og ofbeldi. Ísland hefur verið málsvari þessara kvenna á alþjóðavettvangi. Þess vegna teljum við eðlilegt og sjálfsagt að íslensk stjórnvöld veiti þeim hæli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert