Af hverju ekki að bólusetja drengi?

Drengir hér á landi fá ekki bólusetningu gegn HPV-veirunni.
Drengir hér á landi fá ekki bólusetningu gegn HPV-veirunni.

 „Hér á landi er sem betur fer mjög góð þátttaka í bólusetningu og svo lengi sem við náum að halda því hefur verið talið ólíklegt að strákar smitist,“ segir Lára G. Sigurðardóttir, fræðslustjóri og læknir hjá Krabbameinsfélaginu. „En vandamálið er, og ég hef rætt það við sóttvarnalækni, að það er ákveðinn hópur drengja sem eru samkynhneigðir og þeir eru ekki með vernd gegn veirunni; eru ekki með þetta hjarðónæmi,“ segir Lára og bætir við að í sumum löndum er samkynhneigðum körlum boðið að láta bólusetja sig upp að 45 ára aldri.

Veiran smitast við kynmök

„Við þurfum að vera vakandi fyrir því að hegðun okkar hefur breyst síðustu ár. Ungt fólk ferðast orðið mikið og hingað flykkist fólk víða að úr heiminum frá löndum þar sem heilsuvernd er misgóð og margir eiga ekki kost á bólusetningu gegn HPV. Við erum ekki jafn einangruð á eyjunni okkar og áður fyrr og óbólusettir geta hæglega smitast ef þeir stunda kynlíf með einstaklingi sem ber veiruna í sér,“ segir Lára og útskýrir að veiran geti orsakað krabbamein í kynfærum karlmanna, munnholi og hálsi. „Ég tel að drengir ættu að eiga kost á að fá bólusetningu gegn HPV, sem er ein besta heilsuvernd sem hægt er að veita. Nú eru einungis stelpur bólusettar en ef við getum boðið upp á þessa bólusetningu fyrir drengi líka, af hverju ættum við ekki að gera það?

Er þetta spurning um að ríkið  sé að spara?
 „Það er mjög góð spurning. Ég held að við þurfum að velta því fyrir okkur. Eins og með krabbamein í hálsi, þó það séu ekki mörg tilfelli þá sýna rannsóknir að HPV-veiran er orsök 70% krabbameina í munnholi og hálskirtlum og 95% krabbameina í endaþarmsopi. Kostnaðurinn við hvert krabbamein getur verið mjög hár, fyrir utan allar þjáningarnar sem geta fylgt því að greinast,“ segir Lára.

Ekki aðkallandi að bólusetja drengi

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir það ekki í forgangi að bólusetja drengi hér á landi.  „Það er talið sérstaklega mikilvægt að bólusetja drengi þar sem almenn þátttaka stúlkna er léleg. Þá er meira knýjandi að hefja bólusetningar hjá drengjum til að minnka veiruna í samfélaginu. Hins vegar er ávinningurinn miklu minni þar sem þátttakan er eins góð og hún er hér,“ segir Þórólfur. „Við erum fyrst og fremst að bólusetja gegn leghálskrabbameini og forstigsbreytingum þess og þá er miklu minni þörf á að hefja bólusetningu hjá drengjum,“ segir hann. 

Ódýrara lyfið Cervarix valið hér á landi

Tvenns konar bólusetningarlyf eru notuð gegn HPV, Gardasil og Cervarix og eru skiptar skoðanir á því hvort lyfið eigi að velja. Það síðarnefnda er ódýrara og það sem Íslendingar hafa valið. Gardasil virkar einnig á kynfæravörtur en Þórólfur telur að það að útrýma kynfæravörtum sé ekki eins aðkallandi og það að útrýma krabbameini og að það liggi fleiri ástæður að baki valinu á Cervarix heldur en sparnaður. „Cervarix-bóluefnið er sennilega öflugra gegn leghálskrabbameini og forstigsbreytingum þess en Gardasil. Þannig að það eru margir angar á þessu og maður verður að ákveða hvað er mikilvægasti sjúkdómurinn sem maður vill koma í veg fyrir og ég myndi segja að það væri krabbamein,“ segir hann.

Nánar má lesa um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert