Íslensk ungmenni líklegust til að hafa reykt kannabis

AFP

Íslenskir unglingar eru líklegastir allra evrópskra unglinga til að hafa reykt kannabis á síðustu 12 mánuðum samkvæmt nýútkominni skýrslu Evrópsku vímuvarnarstofnunarinnar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Háskólanum á Akureyri.

Skýrslan kom út í síðustu viku og fjallar um niðurstöður sjöttu útgáfu Evrópsku vímuefnarannsóknarinnar en hún markar þau tímamót að tekist hefur að safna saman gögnum frá 15 ára ungmennum í Evrópu með sömu aðferðum í 20 ár.

„Skýrslan byggir á svörum 96.043 unglinga frá 35 löndum, en alls hafa um 600.000 tekið þátt frá upphafi mælinga þannig að hér er á ferðinni langstærsta verkefni sinnar tegundar í Evrópu. Markmið verkefnisins er að safna samanburðarhæfum og áreiðanlegum gögnum frá sem flestum löndum Evrópu en jafnframt að skapa traustan grunn undir stefnumótun sem snýr að ungu fólki og vímuefnum.

Á Íslandi hefur Rannsóknasetur forvarna við Háskólann á Akureyri séð um að leggja spurningalistann fyrir nemendur í 10. bekk en í síðustu fyrirlögn fengust svör frá 2.663 unglingum,“ segir í tilkynningunni.

Könnunin leiddi í ljós að 14,5% íslenskra drengja og 12,7% íslenskra stúlkna höfðu reykt kannabis á síðustu 12 mánuðum. Svíþjóð kom næst Norðurlandanna en þar höfðu 9,9% drengja reykt kannabis á síðustu 12 mánuðum og 6,4% stúlkna.

Heildarhlutfallið var 8% í Noregi og Danmörku en 7% í Finnlandi. Minnst var neyslan í Færeyjum, en þar höfðu 1,5% unglinga notað efnið á sl. ári.

„Þetta er í samræmi við þær niðurstöður sem við höfum séð undanfarin ár,“ er haft eftir Ársæli Arnarssyni, prófessor í sálfræði við Háskólann á Akureyri.

„Þótt verulega hafi dregið úr áfengisdrykkju og sígarettureykingum íslenskra unglinga – í raun svo mjög að þau eru í algjörum sérflokki í þeim efnum – þá hefur tilhneigingin verið í hina áttina hvað varðar kannabisneyslu. Hlutfall 15 ára unglinga sem er í mjög mikilli kannabisneyslu hefur til dæmis þrefaldast á síðustu 20 árum á Íslandi. Þetta misræmi milli minnkandi tóbaksreykinga og áfengisdrykkju annars vegar og aukinnar kannabisneyslu hins vegar þarf ekki að koma á óvart. Erlendar rannsóknir hafa gjarnan sýnt slíkt mynstur.

Þó að breytingin í neyslumynstri þessa aldurshóps í heild sé þannig í átt frá tóbaki og áfengi en að kannabisneysla aukist, er samt mikilvægt að hafa í huga að þegar horft er til ungra einstaklinga í neyslu fer áfengisneysla yfirleitt alltaf saman við kannabisreykingar. Nýlegar norskar rannsóknir sýna enda að það eru krakkar sem sýna mikla og fjölþætta áhættuhegðun sem eru líklegastir til að vera boðið kannabis til sölu. Það er því nauðsynlegt að beina athygli sérstaklega að þeim einstaklingum sem standa höllum fæti og umgangast aðra sem eru í neyslu,“ segir Ársæll.

Graf/Háskólinn á Akureyri
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert