Önnur framboð í frúnni í Hamborg

Bjarni Benediktsson í pontu á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson í pontu á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Golli

Heilu framboðin virðast hafa verið mótuð um ekkert annað en stór útgjaldaloforð í allar áttir. Þetta sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, á flokksráðsfundi flokksins í dag sem telur marga tala eins og þeir séu í frúnni í Hamborg. Kosningabaráttan sé raunverulega hafin.

Flokksráð Sjálfstæðisflokksins fundaði í dag en fundinum lauk með ávarpi formannsins. Þar sagði Bjarni meðal annars að nú þegar sex vikur væru til kjördags væri hægt að segja að kosningabaráttan væri hafin. Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði að leggja áherslu á þann árangur sem náðst hefði og framtíðarsýn sína í kosningabaráttunni.

Vísaði hann til þess að alger viðsnúningur hafi orðið í efnahagsmálum á síðustu árum. Nú skipti öllu máli að læra af reynslunni, beita langtímahugsun og varðveita árangurinn til að hægt væri að sækja áfram á traustum grunni.

Enginn stærri en flokkurinn

Kosningar væru ekki samkvæmisleikur og alvörumál væru undir í þeim. Sagði Bjarni frá því að hann léki stundum leikinn frúin í Hamborg með ungri dóttur sinni.

„Pabbi, hvað ætlar þú að gera við peningana sem frúin í Hamborg gaf þér? Í aðdraganda þessara kosninga tala margir eins og við séum í þessum samkvæmisleik. Heilu framboðin virðast hafa verið mótuð um ekkert annað en stór útgjaldaloforð í allar áttir,“ sagði Bjarni en Sjálfstæðisflokkurinn tæki ekki þátt í þeim leik.

Gagnrýndi hann vinstriflokkana fyrir að vilja aldrei lækka skatta og gjöld og sakaði þá um að reyna sífellt að finna nýjar ástæður til að hækka álögur á almenning. Sjálfstæðisflokkurinn væri eini flokkurinn sem lofaði að lækka skatta og stæði við það.

Formaðurinn veik að nýlegum úrsögnum úr flokknum. Sagði Bjarni að sjálfsögðu eftirsjá í góðu samstarfsfólki og óskaði þeim sem hefðu fundið sér annan vettvang í stjórnmálum alls hins besta. Starf Sjálfstæðisflokksins héldi hins vegar áfram og enginn félagi hans væri flokknum stærri.

Ljúka byggingu nýs Landspítala

Þá fór Bjarni yfir helstu mál stjórnmálanna í ræðu sinni. Í efnahagsmálum stefndi Sjálfstæðisflokkurinn áfram að hallalausum ríkisfjármálum til að leggja traustan grunn að framsókn á öllum sviðum samfélagsins.

Hann sagðist telja þá hluti sem ættu sér stað á vinnumarkaði um mótun nýs vinnumarkaðarlíkans væru sögulegir. Þegar það væri komið í gildi bæri hann þá von í brjósti að við tæki tímabil meiri stöðugleika, lægri vaxta og öryggi fyrir heimilin.

Þá vísaði hann til stórra verkefna í samfélagsþjónustu. Þar væri stærsta málið að ljúka byggingu nýs Landspítala. Einnig þyrfti að auka aðgengi að nýjum lyfjum, draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga og styrkja heilsugæsluna.

Eins lagði hann áherslu á það sem hann kallaði almenningsvæðingu fjármálakerfisins. Vinna þurfi að því að losa eignarhlut ríkisins í fjármálakerfinu. Stillti hann þessari hugmynd upp gegn því sem hann kallaði samfélagsvæðingu banka.

Bæta þyrfti kjör aldraðra og öryrkja með því að hækka bætur og koma á frítekjumarki sem Bjarni sagði réttlætismál.

Hæddist að Samfylkingunni vegna ESB-aðildar

Formaðurinn skaut föstum skotum að Samfylkingunni þegar kom að Evrópumálum. Ekki einu sinni hún væri lengur með aðild að Evrópusambandinu á stefnuskránni.

„Eftir allt bramboltið. Eftir allt það sem þetta fólk lagði á sig til að troða Íslandi inn í ESB er eins og að málið sé horfið af yfirborði jarðar,“ sagði Bjarni.

Ef setja ætti ESB-aðild á dagskrá fyrir þessar kosningar myndi flokkurinn taka því. Bjarni sagði að staðreyndin væri hins vegar sú að lönd sæktust frekar eftir því að yfirgefa sambandið um þessar mundir. Jafnvel hörðustu stuðningsmenn aðildar töluðu ekki fyrir aðild í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert