Tækifæri til að taka á spillingu og sérhagsmunagæslu

Oddný Harðardóttir, þingmaður og formaður Samfylkingarinnar, segir að skipta þurfi …
Oddný Harðardóttir, þingmaður og formaður Samfylkingarinnar, segir að skipta þurfi kökunni upp á nýtt. mbl.is/Golli

Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir að nú sé tækifæri til að taka á spillingu og sérhagsmunagæslu og vera landið og samfélagið sem fólk vill búa í. Þetta kom meðal annars fram í ræðu Oddnýjar á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar á Grand Hótel í sem nú fer fram. 

„Samfylkingin starfar undir hugsjónafána jafnaðarstefnunnar og mér finnst að jafnaðarstefnan eigi enn meira erindi í dag en oftast áður,“ sagði Oddný.

Hún fór yfir þau tækifæri sem eru nú fyrir hendi til þess að breyta og byrja upp á nýtt. Tækifæri til að leyfa þjóðinni að njóta arðsins af auðlindum, tækifæri til að vera þjóðin sem stendur saman og passar upp á hvert annað, tækifæri til að skapa fjölbreytt atvinnulíf, tækifæri til að koma að nýrri stjórnarskrá, tækifæri til að endurskipuleggja fjármálakerfið og tækifæri til að jafna leikinn í jafnréttisbaráttunni.

Flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar á Grand Hótel.
Flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar á Grand Hótel. mbl.is/Golli

Þarf að skipta kökunni upp á nýtt

„Þessu er vel hægt að breyta, því á Íslandi eru til nóg af peningum, það þarf einfaldlega að skipta kökunni upp á nýtt.“

Í ræðu sinni lagði Oddný áherslu á að mikilvægt sé að setja meira fjármagn í heilbrigðisþjónustna og breyta þar áherslum með því að styrkja opinberu þjónstuna. Þá sé Ísland ríkt að auðlindum og mikilvægt sé að arðurinn af auðlindunum nýtist betur til að standa undir heilbrigðiskerfinu og í stuðningi við barnafjölskyldur. Þannig muni útboð á aflaheimildum skila nauðsynlegum tekjum til að efla heilbrigðisþjónustuna.

„Þetta er allt hægt – því við búum í gjöfulu landi sem er auðugt af auðlindum. Það eru til nægir fjármunir og náttúruauðlindir í landinu, sem við öll eigum saman og eigum að njóta arðsins af,“ sagði Oddný.

Þá ræddi hún um mikilvægi Evrópusamvinnu og benti þar á vandræðagang Breta eftir að þeir samþykktu úrsögn úr Evrópusambandinu. „Það er bjargföst trú mín að Ísland eigi samleið með Evrópusambandinu í framtíðinni. Þjóðin þarf hins vegar að taka sameiginlega ákvörðun um næstu skrefin í því efni.“

Besta heilbrigðisþjónusta sem völ er á

Oddný lagði mikla áherslu á að þjóðin ætti efni á því að búa til bestu heilbrigðisþjónustu hér sem völ  er á. „Við viljum vera best í heimi þegar kemur að heilbrigðisþjónustu - vera best í því að hugsa vel um fólkið okkar.“

„Við verðum að breyta áherslum og styrkja opinbera heilbrigðisþjónustu sérstaklega. Við viljum nýjan Landspítala við Hringbraut, útrýma biðlistum, styrkja þjónustuna um allt land og bæta geðheilbrigðisþjónustuna. Við viljum ekki rukka fólk þegar það stendur veikast fyrir og heilbrigðisþjónustan á að vera ókeypis.“

Þá vill Oddný lengja fæðingarorlofið upp í tólf mánuði og hækka greiðsluþakið strax upp í 600.000 krónur og að foreldrar barnanna geti unnið styttri vinnudag. „Við viljum að foreldrar þeirra geti unnið styttri vinnudag og eigi kost á vinnu við hæfi og eigi möguleika á að styrkja stöðu sína hvort sem er í framhaldsskólunum eða háskólunum. Og síðast en ekki síst að ömmur þeirra og afar fái mannsæmandi eftirlaun og öryrkjar í fjölskyldunni betri kjör og meiri lífsgæði. Og við höfum efni á þessu öllu.“

Allt er þetta hægt 

Í lok ræðu sinnar áréttaði Oddný að allt væri þetta hægt og að þjóðin ætti efni á þessu til dæmis með því að fá auknar tekjur af auðlindum. 

„Með útboði á aflaheimildum, raforkugjaldi og með gistingu og afþreyingu fyrir ferðamenn í almennu þrepi virðisaukaskattskerfisins.  Og með þrepaskiptu skattkerfi og auðlegðarskatti á miklar eignir aðrar heimili fólks til viðbótar við tekjurnar af auðlindunum náum við að gera þetta allt án þess að ýta undir verðbólgu á sama tíma.“

Ræða Oddnýjar uppskar mikið lófaklapp viðstaddra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert