Bjart yfir landinu næstu daga

Búast má við áframhaldandi norðanáttum á landinu næstu daga samkvæmt spá Veðurstofu Íslands, sem segir hitastig fara kólnandi þessu samfara. Þá megi búast við slyddu til fjalla á norðanverðu landinu. Ekki er þó von á öflugum haustlægðum næstu daga að sögn vakthafandi veðurfræðings, sem segir víðast verða bjart yfir að líta, þó búast megi við úrkomu nyrst í norðanáttinni. 

Á morgun verður norðvestanátt og slydda eða rigning frameftir degi á norðanverðu landinu. Það léttir hins vegar til sunnan- og austantil og vindur verður hægur nema á annesjunum fyrir norðan.

Gert er ráð fyrir að vindhraði verði 10-15 metrar á sekúndu á Norðurlandi, en 5-10 metrar á sekúndu annars staðar á landinu. Hlýjast verður sunnanlands þar sem búast má við að hitatölur nái jafnvel 10-11 stigum, en kaldast verður fyrir norðan þar sem spá gerir ráð fyrir 3-6 stigum.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert