„Þetta mál var algjört bull frá upphafi til enda“

Hér má sjá flutningabílinn.
Hér má sjá flutningabílinn. Ljósmynd/Sævar Benediktsson

Mikil óánægja ríkir hjá flutningafyrirtækinu BB & sonum ehf. vegna dóms Hæstaréttar í máli fyrirtækisins gegn Sæferðum ehf. BB & synir kröfðust skaðabóta vegna tjóns á flutningabifreið þeirra í ferð frá Brjánslæk til Stykkishólms með ferjunni Baldri sem er í eigu Sæferða.

Málið fór fyrir Héraðsdóms Vesturlands sem komst að þeirri niðurstöðu að skaðabótakrafa stefnanda væri fyrnd þegar málið var höfðað þann 26. nóvember 2013, höfða þyrfti mál innan árs frá því að slysið átti sér stað. Voru Sæferðir ehf. sýknaðar af kröfunni og BB & synir ehf. dæmdir til að greiða málskostnað. Hæstiréttur komst að sömu niðurstöðu og dæmdi BB & syni ehf. til að greiða 750.000 krónur í málskostnað.

Frétt Snæfellingar.is

Atvikið sem um ræddi átti sér stað þann 20. desember árið 2011. Flutningabíll og tengivagn í eigu BB & sons ehf. valt um borð í Baldri þegar borðastrekkjarar slitnuðu. Samkvæmt skýrslu Rannsóknarnefndar sjóslysa telur nefndin orsök atviksins vera ófullnægjandi sjóbúning og slæmt ástand á borðastrekkjurum.

13-15 milljóna króna tjón 

„Þetta mál var algjört bull frá upphafi til enda,“ segir Sævar Benediktsson, framkvæmdastjóri BB & sona ehf. Hann segir að Sæferðir ehf. hafi boðið þeim að fá tjónið bætt en klára þyrfti málið með hjálp lögfræðinga. Ætlunin með því hafi aftur á móti verið sú að láta þetta ár líða svo að málið teldist fyrnt. „Óheiðarleikinn var svo mikill að það var bara verið að þessu til þess að fara fram yfir þetta ár.“ Þá var einnig verið að bíða eftir skýrslu Rannsóknarnefndar sjóslysa og var það þáttur í því að málið var ekki höfðað strax. 

Hann segir tjónið vera á billinu þrettán til fimmtán milljónir fyrir BB og syni ehf. þar sem lögfræðikostnaðurinn er orðinn umtalsverður. Málinu er þó ekki lokið af hálfu BB og sona ehf. að sögn Sævars.

Fyrirtækið mun nú aðeins nota ferjuna Baldur til flutninga í neyð en Sævar segir marga flutningsaðila hafa lent í svipuðum atvikum með Sæferðum ehf. „Það eru yfirleitt minni tjón sem ekkert er verið að fara í mál út af.“

Sævar segir málið hafa vakið mikla athygli í Stykkishólmi þar sem allir þekki alla og treysti öllum. „Það eru allir undrandi á dómskerfinu á Íslandi og að þetta skuli hafa verið dæmt svona.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert