Arctic Circle-verðlaunin veitt í fyrsta sinn

Ban Ki-moon framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna verður meðal gesta á Arctic …
Ban Ki-moon framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna verður meðal gesta á Arctic Circle-ráðstefnunni á Íslandi. AFP

Á þingi Hringborðs norðurslóða - Arctic Circle sem haldið verður í Hörpu 7. - 9. október verða Arctic Circle-verðlaunin veitt í fyrsta sinn. Þau eru stofnuð til að heiðra einstaklinga, samtök eða stofnanir sem hafa haft afgerandi áhrif á framtíð norðurslóða, samstarf um málefni þeirra eða rannsóknir á umhverfi. Verðlaunin verða afhent  á öðrum degi þingsins, þann 8. október. Verðlaunagripinn gerði glerlistakonan Sigrún Ólöf Einarsdóttir.

Í fréttatilkynningu kemur fram að þátttakendur frá um 40 löndum hafi þegar skráð sig á þingið: ráðherrar og fulltrúar fjölmargra ríkja, forystumenn vísindastofnana og stjórnendur fyrirtækja og umhverfissamtaka. Áhugasömum Íslendingum er sérstaklega boðið að sækja þingið og skrá sig á heimasíðunni. 

Auk framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna Ban Ki-moon og forsætisráðherra skosku heimastjórnarinnar Nicola Sturgeon munu fjölmargir ráðamenn frá Norðurskautsríkjunum og Asíu og Evrópu flytja ræður á þinginu ásamt heimsþekktum vísindamönnum og forystumönnum umhverfissamtaka. Alls verða rúmlega 90 málstofur á þingi Arctic Circle með um 400 ræðumönnum og fyrirlesurum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert