„Hver upplifun á ljósunum einstök“

mynd/Sigurður Ægisson

Vel hefur viðrað til norðurljósaáhorfs síðustu nætur og von er á svipuðum skilyrðum næstu daga. Hér á landi sjást norðurljósin reglulega og Íslendingar eru fyrir löngu orðnir vanir þessum truflunum á segulsviði jarðar. Ekki eru allir jafnlánsamir og við Íslendingar og því leggja margir erlendir ferðamenn leið sína til landsins í von um að líta norðurljósin augum. 

Upplifun ferðamanna

Gray Line Iceland stendur reglulega fyrir norðurljósaferðum sem sóttar eru af ferðamönnum á norðurljósaveiðum. Svanur Gísli Þorkelsson er leiðsögumaður í þessum ferðum og segir hann að hann leggi sérstaka áherslu á að hver upplifun á ljósunum sé einstök. Ljósin séu svo fjölbreytt að ekki sé hægt að bera þau saman.

Við skipulagningu norðurljósaferðanna er sérstaklega horft til veðurspár þar sem skýjafar hefur mikið um skyggnið að segja. „Þetta er svolítið eins og að sjá álfa, þú verður að vera á réttum stað á réttum tíma,“ segir Svanur í samtali við mbl.is.

Í ferðum Gray Line Iceland er keyrt á áfangastaði í um 150 km radíus umhverfis Reykjavík, meðal annars í Borgarfirði, austan við fjall og á Reykjanesi. Í gærkvöldi lá leiðin að Fákaseli og segir Svanur að hópurinn hafi upplifað nánast allar gerðir norðurljósa á einu kvöldi: „Við fengum langa borða þvert yfir himinhvolfið og síðan alla hnykkina og bylgjurnar í boganum. Síðan færðust borðarnir ofar á himininn og þá vorum við staðsett undir þeim. Þegar það gerist þá verður til eins konar tjaldbúð sem þú horfir upp í og þá koma litasprengingarnar niður.“

Skyggnið var þó ekki eins gott nokkru austar, á Hótel Rangá, en þar var skýjað og því lítið að sjá. Þangað sækja ferðamenn þó reglulega með norðurljósaskoðun í huga en í móttökunni geta gestir skráð sig á norðurljósalista. Ef starfsmenn sjá norðurljós er hringt í skráða gesti og þeim bent á nú sé tími til að fara út að skoða. Þá er jafnvel hringt aftur sama kvöld ef ljósin verða sterkari eftir því sem á líður.

Í samtali við mbl.is sagði Ingi Þór Jakobsson rekstrarstjóri jafnframt að ef útlit er fyrir góð skilyrði séu gestir látnir vita fyrir fram og gefið tækifæri á að hlýða á fyrirlestra um stjörnur, norðurljós og önnur leyndarmál alheimsins.

Bæði Svanur og Ingi Þór segja að upplifun ferðamanna af norðurljósunum sé upplifun út af fyrir sig. Hróp, köll og tár eru algeng sjón á báðum stöðum og bónorð reglulegur hluti af norðurljósaferðum Gray Line Iceland. Margir sem hingað sækja yfir vetrartímann koma meðal annars í þeim tilgangi að sjá norðurljósin og eru jafnvel að upplifa gamla æskudrauma.

Íslendingar sækja ekki sérstaklega í norðurljósaferðir en bæði Svanur og Ingi Þór nefna að þeir Íslendingar sem komi upplifi norðurljósin í raun í nýju ljósi. Segir Svanur að Íslendingar vilji nálgast norðurljósin „ekki sem alvana atburði heldur þá frá sjónarhóli ferðamannsins og sem sérstaka upplifun.“

Vetrarbrautin okkar og norðurljós yfir Hótel Rangá.
Vetrarbrautin okkar og norðurljós yfir Hótel Rangá. mynd/Snorri Þór Tryggvason

Hvað skapar þessar góðu aðstæður?

Á vefsíðu Veðurstofu Íslands segir að norðurljósin stafi af „truflunum á segulsviði jarðar sem rafhlaðnar eindir frá sólinni valda.“ Margir tengja norðurljósin við frostkaldar vetrarnætur en í raun hefur hitastig jarðar ekkert með virkni ljósanna að gera. Norðurljósin eru í gangi allan sólarhringinn, allt árið um kring.

Í samtali við mbl.is sagði Þórður Arason, jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofu íslands, að tenging okkar milli norðurljósanna og kuldans eigi sér þó einfalda skýringu: „Til að norðurljósin sjáist þarf að vera myrkur og þá erum við á vetrarhelmingi ársins. Svo þarf að vera heiðskírt og þá er gjarnan norðanátt.“

Á daginn og yfir sumartímann er einfaldlega of bjart úti til að hægt sé að sjá norðurljósin og yfir vetrartímann eru það skýin sem gjarnan fela þau frá okkur á jörðu niðri. Vetrartími og skýjaleysi þýðir því að þegar norðurljósin sjást frá hér frá jörðu er hitastig oft við eða undir frostmarki.

Spáin næstu daga

Í norðurljósaspá Veðurstofu Íslands má sjá spá um bæði norðurljósavirkni og skýjafar. Norðurljósavirkni er gefin upp á Kp-kvarða, frá 0-9, sem lýsir styrk segulsviðstruflana á jörðinni. Þar af er algengast að virkni sé á bilinu 0-3. Sjaldgæft er að virkni nái hæstu tölum en næstu daga er spáð töluverðri virkni, á bilinu 4-6. Spánni samkvæmt verður heiðskírt eða léttskýjað víðs vegar um landið og því ættu skilyrði til norðurljósaáhorfs að verða góð.

 „Það eru núna mjög mikil læti frá sólinni og það lítur út fyrir að það verði bjart í kvöld og á morgun. Á miðvikudaginn er spáð mikilli virkni en það á eftir að koma í ljós hversu vel það stenst,“ sagði Þórður að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert