Konur launalausar mánuð á ári

Frá samstöðufundi SFR við stjórnarráðið í fyrra þegar samningaviðræður stóðu …
Frá samstöðufundi SFR við stjórnarráðið í fyrra þegar samningaviðræður stóðu yfir á milli SFR og ríkisins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Munur á heildarlaunum karla og kvenna samkvæmt niðurstöðum árlegrar launakönnunar SFR stéttarfélags í almannaþjónustu og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar (St.Rv.) er 20% hjá SFR og 13% hjá St.Rv. Könnunin var framkvæmd af Gallup og í samvinnu við VR.

Kynbundinn launamunur milli karla og kvenna, þ.e. sá munur sem situr eftir þegar búið er að taka tillit til þátta sem hafa áhrif á launin s.s. vaktaálags, starfsstéttar, starfsaldurs, vinnutíma, aldurs, atvinnugreinar og mannaforráða er hins vegar 11,8% hjá félagsmönnum SFR, en 6,1% ef skoðaðir eru allir félagsmenn St.Rv. Munur á launum karla og kvenna sem starfa hjá Reykjavíkurborg er hins vegar 4,1%.

„Þurfum að leiðrétta launin ef við ætlum að ná fram jöfnuði“

„Ef prósentunni á kynbundnum launamun kynjanna er snúið upp í fjölda daga má segja að konur í St.Rv. vinni alls 16 launalausa daga og SFR konur vinni 31 launalausan dag á ári. Þessar tölur eru fengnar eftir að áhrifaþættir hafa verið reiknaðir frá, hér er því einungis byggt á kynbundnum launamun,“ segir í sameiginlegri fréttatilkynningu frá SFR og Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar.

„Við getum notað margs konar reikningsaðferðir til að sýna fram á launamismun, bæði á milli kynjanna og einnig á milli atvinnumarkaða. Það sem skiptir hins vegar öllu máli hér er að við erum að tala um lífsviðurværi fólks, - launin þeirra fyrir dagsverkið. Niðurstöður þessara kannanna eins og allra hinna sem félögin hafa birt á undanförnum árum sýna að ekki er jafnt gefið. Við þurfum einfaldlega að leiðrétta launin ef við ætlum okkur að ná fram jöfnuði.“

Laun starfsmanna á almennum markaði töluvert hærri en laun opinberra starfsmanna

Þá kemur fram að laun starfsmanna á almennum markaði séu töluvert hærri en laun opinberra starfsmanna. Leiðir könnunin í ljós að hækkun heildarlauna hjá félögunum eru tæp 9% milli ára. Á sama tíma mældist hækkun launavísitölu Hagstofunnar fyrir allan vinnumarkaðinn um 9,4%.

Launakönnunin er unnin í samvinnu við VR og gefur góða mynd af mismuninum milli launaþróunar félaga á opinberum og almennum vinnumarkaði. „Ekki kemur á óvart, þótt það séu sannarlega vonbrigði að enn og aftur eru laun starfsmanna á almennum markaði (VR) töluvert hærri en laun opinberra starfsmanna (SFR & St.Rv.) Þannig hefur það verið í öllum könnunum félaganna frá upphafi mælinga.“

Samkvæmt könnuninni eru heildarlaun VR félaga allt að 30% hærri, þar sem meðalheildarlaun félagsmanna í VR eru tæplega 597 þúsund á mánuði, en þau eru um 458 þúsund hjá SFR félögum og tæp 483 þúsund hjá St.Rv.

Eftir að tekið hefur verið tillit til áhrifaþátta sýna niðurstöður hins vegar að félagsmenn VR hafa 15% hærri laun en félagsmenn SFR og 16% hærri laun en félagsmenn St.Rv.

„Ef reikningsdæmið um launalausu dagana hugnast fólki má með sama hætti nota það til að bera saman laun á milli opinbera og almenna markaðarins og segja að félagsmaður hjá SFR vinni 42 launalausa daga og St.Rv. félagar vinna 39 launalausa daga á ári ef miðað er við laun VR félaga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert