Yfir 20 sóttu um hæli um helgina

Tvær albanskar fjölskyldur fengu ríkisborgararétt frá Alþingi í desember í …
Tvær albanskar fjölskyldur fengu ríkisborgararétt frá Alþingi í desember í fyrra en þær höfðu verið sendar úr landi fyrr um veturinn eftir að hafa verið synjað um hæli hér. mbl.is/Styrmir Kári

Yfir tuttugu manns sóttu um hæli á Íslandi um helgina en flestir þeirra koma frá Albaníu og Makedóníu. Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun hefur fólk frá þessum ríkjum aldrei fengið hæli á Íslandi en bæði löndin eru álitin örugg af nán­ast öllum ríkjum Evrópu. Fólk frá Albaníu og Makedóníu hefur alltaf verið synjað um hæli á Íslandi en ein fjölskylda hefur fengið dvalarleyfi samkvæmt úrskurði kærunefndar útlendingamála. 

Frétt mbl.is: 1% Albana hefur veitt hæli

Víkurfréttir greina frá því í dag að tuttugu og þrír einstaklingar hafi sótt um hæli á Íslandi við komuna til Keflavíkurflugvallar í gær. Þetta staðfesti Gunnar Schram, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Um var að ræða fimm fjölskyldur og einn einstakling. Aldrei áður hafa jafn margir sótt um hæli á Íslandi á einum degi.

Gunnar segir að fólkið komi frá Makedóníu og Albaníu og hafi komið hingað í gegnum Búdapest í Ungverjalandi. Móttökumiðstöð hælisleitenda tók við fólkinu í gærkvöldi.

Líkt og fram hefur komið þá stefnir allt í að um 700 manns sæki um hæli hér á landi í ár og hafa umsóknir um vernd hér á landi aldrei verið jafn margar. 

Þetta hefur þýtt að þrátt fyrir aukið fé í málaflokkinn þá hefur afgreiðsla umsókna gengið hægar en vonir stóðu til. Lagt er til í frumvarpi til fjáraukalaga að fjárframlag til Útlendingastofnunar vegna hælisleitenda verði aukið um 640 milljónir króna fyrir árið 2016. Framlag vegna hælisleitenda í fyrra var 757 milljónir króna en á því ári var fjöldi hælisleitenda 354. Búist er við að hælisleitendur á þessu ári verði um 700 talsins, sem væri um 98% aukning á milli ára.

Í frumvarpi til fjáraukalaga um hælisleitendur segir að Útlendingastofnun hefur áætlað að hælisumsóknir gætu orðið á bilinu 600-1.000 samanborið við 375 árið 2015. Í því sambandi er lagt til að veita annars vegar 600 m.kr. aukna fjárheimild vegna kostnaðar við uppihald hælisleitenda hér á landi og hins vegar 200 m.kr., m.a. til Útlendingastofnunar og Kærunefndar útlendingamála, vegna aukinnar umsýslu og til að hraða málsmeðferð hælisumsókna.

Samkvæmt upplýsingum mbl.is renna 20 milljónir af 200 milljónum til Ríkislögreglustjóra en alþjóðadeild embættisins annast fylgd þeirra sem hefur verið synjað um hæli á Íslandi úr landi. 

Umsækjanda um vernd ber að yfirgefa landið þegar hann hefur fengið endanlega synjun á umsókn sinni og á ekki annan rétt til dvalar hér á landi lögum samkvæmt, segir á vef Útlendingastofnunar en töluverðar tafir hafa orðið á því undanfarið vegna mikils álags.

„Alþjóðadeild ríkislögreglustjóra sér um birtingar í málum þar sem niðurstaðan er sú að umsækjandi um vernd skuli yfirgefa landið. Við birtingu slíkra ákvarðana er viðkomandi upplýstur um að fyrirséð sé að Útlendingastofnun muni óska eftir lögreglufylgd í samræmi við efni niðurstöðunnar og útskýrt það ferli sem framundan er tengt brottför hans af landinu. 

Beiðni um lögreglufylgd

Útlendingastofnun yfirfer hvert mál áður en beiðni um lögreglufylgd er send til alþjóðadeildar ríkislögreglustjóra. Stofnunin kannar hvort ákvörðun sé framkvæmdarhæf, hvort viðkomandi eigi ólokin erindi eða mál fyrir stjórnvöldum eða hvort aðrar ástæður komi í veg fyrir framkvæmd.

Beri umsækjanda um vernd að yfirgefa landið og sé úrlausn þar um framkvæmdarhæf sendir Útlendingastofnun beiðni um framkvæmd til alþjóðadeildar ríkislögreglustjóra. Samhliða hefur Útlendingastofnun samband við talsmann viðkomandi og upplýsir hann um að beiðni um fylgd hafi verið send alþjóðadeild ríkislögreglustjóra og beinir því til talsmanns að hann láti viðkomandi vita.

Alþjóðadeild ríkislögreglustjóra kynnir viðkomandi þegar nánar skýrist með tímasetningu lögreglufylgdar.

Náist ekki í umsækjanda eða talsmann eftir ítrekaðar tilraunir er beiðni um lögreglufylgd engu að síður send til alþjóðadeildar ríkislögreglustjóra sem hefst handa við undirbúning fylgdar. Áfram er reynt að hafa samband við umsækjanda eða talsmann,“ segir á vef

<a href="http://utl.is/index.php/fylgd-ur-landi-eftir-synjun" target="_blank">Útlendingastofurnar.</a> <a href="https://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/samid-um-samstarf-um-adstod-vid-sjalfviljuga-heimfor-umsaekjenda-um-vernd" target="_blank">Samstarf um sjálfviljuga brottför</a>
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert