Bjarga bílbeltum og búa til töskur

Frumkvöðlarnir ungu eru orðnir býsna flinkir að sauma.
Frumkvöðlarnir ungu eru orðnir býsna flinkir að sauma. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Frumkvöðlaáfangi í Menntaskólanum við Hamrahlíð var kveikjan að fyrirtæki, sem þau Trausti Þór Þorsteins, Aníta Þórunn Þráinsdóttir og Ívar Dór Orrason settu á laggirnar í vor. Þar eru þau allt í öllu og sitja löngum stundum við saumaskap og fléttugerð í kjallara einum í Kópavogi.

BéBé er á Facebook, Instagram, YouTube og einnig með vefsíðu þar sem áhugasömum er boðið að bjarga beltum, þeim sömu og oft hafa bjargað mannslífum. Bílbeltum nánar til tekið, enda er slagorð fyrirtækisins beltin bjarga, björgum beltunum. Afurð BéBé eru töskur fléttaðar og saumaðar úr notuðum bílbeltum, sem ella hefði verið fargað.

Samfélagsmiðlarnir eru enn sem komið er helsti markaðsvettvangur BéBé, fyrirtækis sem skólafélagarnir Trausti Þór Þorsteins, Aníta Þórunn Þráinsdóttirog Ívar Dór Orrason stofnuðu í vor eftir frumkvöðlaáfanga í Menntaskólanum við Hamrahlíð.

„Áfanginn er í boði hjá flestum framhaldsskólum landsins og snýst um að nemendur stofna sitt eigið fyrirtæki og framleiða vöru. Nemendum er skipt í hópa og lentum við Aníta Þórunn og Ívar Dór í sama hópi ásamt tveimur öðrum,“ útskýrir Trausti Þór. Þremenningarnir ákváðu hins vegar að halda þróunarstarfinu áfram þegar áfanganum lauk, stofna alvöru fyrirtæki og hefja framleiðslu.

Tveir bílar í tösku

„Hópurinn var samstíga í að hafa umhverfisvernd og endurnýtingu að leiðarljósi og búa jafnframt til frumlega vöru, sem ekki ætti sér fyrirmynd á markaðnum. Fyrst datt okkur í hug að hanna tölvutöskur úr viði og nota bílbelti sem axlabönd, en við áttum ekki mikla peninga og allt benti til að þær yrðu of dýrar í framleiðslu og aukinheldur óþægilegar. Sú hugmynd að gera töskur eingöngu úr bílbeltum kom tiltölulega seint fram í hugmyndaferlinu, en reyndist mikið gæfuspor. Töskurnar eru bæði afar þægilegar og sporna aukinheldur við sóun, sem okkur finnst mjög mikilvægt,“ segir Trausti Þór og hefur tölur á takteinum máli sínu ti stuðnings. „Í fyrra var sex þúsund bílum fargað á Íslandi og um leið þrjátíu þúsund bílbeltum. Í eina tösku fara átta bílbelti eða belti úr tveimur bílum því yfirleitt eru fjögur í hverjum bíl.“

Þau unnu frumgerðina algjörlega sjálf og þurftu að prófa sig töluvert áfram áður en þau voru ánægð; hreinsa beltin, mæla, klippa, flétta og síðast en ekki síst að læra að sauma. „Aníta Þórunn var sú eina sem kunni svolítið að sauma og einhver í hópnum útvegaði saumavél,“ segir Trausti Þór og lætur þess getið að strákarnir hafi verið fljótir að læra handbrögðin og gefi Anítu Þórunni nú lítið eftir í saumaskapnum.

Viðurkenning fyrir sjálfbærni

En fyrst lá leiðin í Vöku. Þar var tekið ljúfmannlega í erindi þeirra og nægt hráefni á boðstólnum gegn vægu gjaldi. Í fyllingu tímans þegar varan var orðin frambærileg tefldu þau henni fram í keppni Junior Achievement Ísland – Ungir frumkvöðlar 2016, sem allir í frumkvöðlaáföngum framhaldsskólanna, um 70 hópar, tóku þátt í og Nýsköpunarmiðstöð Íslands stóð fyrir. „Við vorum meðal þeirra 15 sem komust áfram og bauðst að kynna vöruna fyrir fjárfestum auk þess sem við fengum viðurkenningu fyrir áherslu á sjálfbærni í vöruþróun, “ segir Trausti Þór og jafnframt að töskurnar hafi vakið mikila athygli á uppskeruhátíð í Smáralind í apríl. „Þá sýndu 35 fyrirtæki, sem þátt tóku í áfanganum, vörur sínar á jafnmörgum básum.“

Viðtökurnar gáfu þeim byr undir báða vængi og síðan hafa þau setið löngum stundum og saumað í kjallaranum heima hjá Anítu Þórunni þar sem þau hafa þrjár saumavélar til afnota og ráðið ráðum sínum um vöruþróun, hönnun og markaðssetningu og allt sem því fylgir að reka alvörufyrirtæki. Verkaskiptingin er ekki niðurnjörvuð, en markaðsmálin hafa þó svolítið fallið í hlut Trausta Þórs undanfarið. „Við erum í viðræðum við nokkrar hönnunarverslanir, en höfum fram til þessa aðallega selt og auglýst á netinu, enda höfum við ekki mikil fjárráð. Til dæmis höfum við fengið fólk sem er vinsælt á samfélagsmiðlum til að auglýsa töskurnar og borgum því fyrir með töskum.“

Eilífðartöskur

Frumkvöðlarnir ungu eru allir í námi, Trausti Þór á tvö ár í stúdentspróf, Ívar Dór er á síðasta ári og Aníta Þórunn á fyrsta ári í tölvunarfræði í Háskóla Íslands. Drjúgur tími fer í töskugerðina, lauslega ágiskað þrír tímar í hverja tösku sem þau þurfa að vinna í sameiningu því ekki er eins manns verk að flétta saman níðsterk bílbelti, hefta og sauma síðan saman og fóðra, en það síðastnefnda er tímafrekasta og mesta nákvæmnisvinnan.

„Heilmikil kúnst, en við erum orðin býsna flink,“ segir Trausti Þór. „Við höfum mikinn áhuga á að halda starfinu áfram og erum með margar hugmyndir á prjónunum. Þótt töskurnar séu ætlaðar fyrir bæði kynin á öllum aldri, er raunin sú að þær eru vinsælli hjá stelpum og því erum við að þróa bakpoka úr bílbeltum sem líklegir eru til að falla meira í kramið hjá strákunum. Og svo erum við að pæla í að búa til töskur með rennilásum en ekki segulsmellum eins og eru núna á þeim,“ segir hann og bætir við að BéBé-töskurnar séu sannkallaðar eilífðartöskur því þær séu með ólíkindum slitsterkar.

Unhverfisvernd og endurnýting í hávegum höfð.
Unhverfisvernd og endurnýting í hávegum höfð. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
Trausti Þór, Aníta Þórunn og Ívar Dór skarta eigin framleiðslu.
Trausti Þór, Aníta Þórunn og Ívar Dór skarta eigin framleiðslu. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert