Blása til sóknar í bólstrun

Hjónin María Tómasdóttir og Hafsteinn Gunnarsson á vinnustofunni við Langholtsveg.
Hjónin María Tómasdóttir og Hafsteinn Gunnarsson á vinnustofunni við Langholtsveg. mbl.is/RAX

Illa horfir með endurnýjun í stétt bólstrara hérlendis og fáir hafa útskrifast í iðninni undanfarinn rúman áratug en Meistarafélag bólstrara vinnur að því að danskur skóli taki á ný við Íslendingum svo þeir geti lokið námi í greininni.

Gunnar V. Kristmannsson stofnaði Bólstrarann árið 1944 og Hafsteinn, sonur hans, tók síðan við rekstrinum, en hann hefur unnið í fyrirtækinu frá 1970 og hefur aldrei haft eins mikið að gera og um þessar mundir. Fyrirtækið var lengi í miðbænum í Reykjavík en hefur verið í hentugu rými við Langholtsveg um árabil og þar segist Hafsteinn kunna vel við sig.

„Ég lærði hjá pabba og eftir að hafa bætt við kunnáttuna í Skive Tekniske Skole í Danmörku byrjaði ég í fullu starfi hjá honum og hef verið í þessu síðan,“ segir Hafsteinn. „Þetta er mjög skemmtilegt starf og ég hef ekki getað slitið mig frá því,“ heldur hann áfram. „Ánægjan felst einkum í því að gera gamla, góða hluti enn þá fallegri.“

Fjölbreytt starf

Hafsteinn flytur inn öll húsgagnaáklæði milliliðalaust og er með umboð fyrir mörg af þekktustu merkjum í Evrópu eins og til dæmis Romo og Bakers frá Bretlandi. Hann selur líka veggfóður, m.a. frá Élitis, og gluggatjöld. „Þetta tengist allt,“ leggur hann áherslu á og bendir á að arkitektar vinni gjarnan með þessa hluti og velji þá saman.

Hjónin Hafsteinn og María Tómasdóttir eru að jafnaði með fjóra aðra starfsmenn og þannig hefur það verið lengst af. Hafsteinn segist vinna mikið að sérsmíði með arkitektum. Hann hefur unnið fyrir marga veitingastaði og hótel og á dögunum lauk hann til dæmis við að bólstra alla bekki í Messanum við Lækjargötu. Auk þess má sjá handbragðið í Restó við Rauðarárstíg, í Kryddlegnum hjörtum við Hverfisgötu, á nýja Icelandair-hótelinu á Hljómalindarreitnum og á hótelinu við Geysi í Haukadal, svo dæmi séu tekin. „Við finnum mikið fyrir ferðamennskunni, seljum veitingastöðum og gististöðum veggfóður og gluggatjöld og bólstrum fyrir þá,“ segir hann.

Hafsteinn man tímana tvenna í bólstruninni. „Fyrir 1970 voru öll húsgögn framleidd innanlands enda var þá bannað að flytja þau inn en eftir að Ísland gekk í EFTA breyttist staðan. Þá var tollurinn 100%, en hann lækkaði um 10% á ári og féll alveg niður 1980. 1977 er sagt að um 700 manns hafi unnið í húsgagnageiranum og innréttingum á Íslandi, en eins og fleiri iðngreinar hrundi þetta allt saman eftir 1980.“

Vörn í sókn

Lítil endurnýjun hefur verið í stéttinni en nú standa yfir viðræður um að koma síðustu áföngum námsins, sem ekki eru kenndir hérlendis, til Skive í Danmörku, þar sem Hafsteinn lærði. Hann er formaður prófnefndar Meistarafélags húsgagnabólstrara og fyrrverandi formaður félagsins. „Við verðum að snúa vörn í sókn,“ segir hann. „Það sárvantar starfsmenn í bólstrun og það tekur langan tíma að þjálfa fólk upp, fjögur til sex ár.“

Barokkstóll. Mynd eftir Jessicu Zoob, breskan listmálara, prentuð á áklæðið.
Barokkstóll. Mynd eftir Jessicu Zoob, breskan listmálara, prentuð á áklæðið. mbl.is/RAX
Stóll sem Hafsteinn hefur farið höndum um.
Stóll sem Hafsteinn hefur farið höndum um. mbl.is/RAX
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert