Fékk flogakast undir stýri

mbl.is/Hjörtur

Alls slösuðust tíu í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu í síðustu viku. Þar á meðal þrír hjólreiðamenn og ökumaður sem fékk flogakast við aksturinn. Þetta kemur fram á vef lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Sunnudaginn 18. september kl. 15:40 lenti hjólreiðamaður, sem hjólaði til austurs eftir gangstétt við Vesturhóla, fyrir bifreið, sem var ekið suður Fýlshóla. Gróður við gatnamótin hindraði útsýni ökumanns áður en óhappið varð. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Mánudaginn 19. september kl. 14:40 varð drengur fyrir bifreið á gangbraut yfir Strandgötu við Flensborgar-hringtorgið í Hafnarfirði. Drengurinn leitaði sér læknisaðstoðar á slysadeild eftir óhappið.

Miðvikudaginn 21. september kl. 8:52 varð aftanákeyrsla á Miklubraut á leið til vesturs austan Háaleitisbrautar. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Fimmtudaginn 22. september kl. 19:09 lenti hjólreiðamaður á leið til norðurs á gangbraut yfir Geirsgötu við Naustin á bifreið, sem ekið var austur götuna. Hann var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 23. september. Klukkan 6:40 féll hjólreiðamaður af hjólinu í Vallarbyggð er bakpoki flæktist í framhjólinu. Hann var fluttur á slysadeild. Klukkan 15:03 var bifreið ekið austur Kleppsveg og á ljósastaur á miðeyju gegnt húsi nr. 72. Ökumaðurinn, sem hafði fengið flogakast við aksturinn, var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 24. september. Kl. 13:29 var bifreið ekið norður Stekkjarbakka og aftan á kyrrstæða bifreið framundan gegnt Garðheimum, sem kastaðist áfram á þriðju bifreiðina, sem einnig var kyrrstæð. Ökumaður miðbifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Fjögurra bíla árekstur í Kollafirði

Klukkan 15:51 varð fjögurra bifreiða árekstur í Kollafirði. Bifreið var ekið til suðurs og hugðist ökumaðurinn beygja til hægri inn á bifreiðastæði þegar bifreið lenti aftan á henni. Síðan bætti þriðji ökumaðurinn um betur, ók aftan á aftari bifreiðina með þeim afleiðingum að fremri bifreiðarinnar tvær köstuðust áfram og lenti fremsta bifreiðin á kyrrstæðri bifreið inni á bifreiðastæðinu. Ökumaður næst öftustu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Klukkan 16:19 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Hringbraut á leið til vesturs við gatnamót Njarðargötu. Ökumaður og farþegi í miðbifreiðinni voru fluttir á slysadeild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert