Fimm prósent af veltu í gott málefni

Frá Kringlunni,.
Frá Kringlunni,. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Góðgerðardagur Kringlunnar fer fram á fimmtudaginn kemur, 29. september, en þá munu verslanir og veitingastaðir verslunarmiðstöðvarinnar gefa 5 prósent af veltu dagsins til góðgerðarmála. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kringlunni. Þar kemur fram að um sé að ræða árlegt verkefni sem fer undir yfirskriftinni Af öllu hjarta. Í ár verður safnað til styrktar Bleiku slaufunni sem safnar fyrir endurnýjun tækjabúnaðar fyrir brjóstakrabbameinsleit.

Baldvina Snælaugsdóttir, markaðstjóri Kringlunnar.
Baldvina Snælaugsdóttir, markaðstjóri Kringlunnar. mbl.is/Styrmir Kári

„Við höfum velt fyrir okkur leiðum til að gefa til baka til samfélagsins og þessi frábæra hugmynd að árlegum góðgerðardegi kom frá kaupmönnum sjálfum og gerir verkefnið enn göfugra. Auk þess að gefa hluta af veltu dagsins til Bleiku slaufunnar verða fjölmargir viðburðir, uppákomur og tilboð þennan dag til að vekja athygli á málefninu,“ segir Baldvina Snælaugsdóttir, markaðsstjóri Kringlunnar.

Í tilkynningunni segir að meðal viðburða í ár verður listasmiðja með listamanninum Tolla. Hann mun taka á móti börnum og mála með þeim listaverk sem tileinkað er Bleiku slaufunni. Tolli fullklárar síðan verkið sem verður sett upp á sýningu hans í Kringlunni í byrjun október og söluandvirði verksins rennur í söfnunina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert