Íbúar vilja ekki bílaumboð í Mjóddina

Lóðin er við enda íþróttasvæðis ÍR, en hugmyndir voru uppi …
Lóðin er við enda íþróttasvæðis ÍR, en hugmyndir voru uppi um að bílaumboðið Hekla fengi lóðina. mbl.is/Ragnar Axelsson

Á íbúafundi í Breiðholtsskóla í kvöld voru áform Reykjavíkurborgar um að úthluta lóð undir atvinnustarfsemi í Suður-Mjódd harðlega gagnrýnd. Ályktaði fundurinn að aðeins skyldi reisa mannvirki sem tengdust íþróttum eða útivist á svæðinu og þá var farið fram á að borgarstjórn efni tafarlaust samning um íþróttamiðstöð ÍR og að sú framkvæmd verði sett á fjárhagsáætlun ársins 2017.

Í tilkynningu sem fundurinn sendi frá sér segir að um sé að ræða 24 þúsund fermetra lóð sem borgin íhugi að úthluta undir bílaumboð með tilheyrandi þjónustu. Lóðin er við uppbyggingasvæði Íþróttafélags Reykjavíkur (ÍR) sem setið hefur eftir í uppbyggingu íþróttamannvirkja samanborið við íþróttafélög annarra hverfa Reykjavíkur.

Eftirfarandi ályktanir voru samþykktar samhljóða á fundinum:

  • Að á landsvæði Suður-Mjódd rísi eingöngu mannvirki sem tengjast íþróttum, útivist og grænum svæðum en ekki atvinnustarfsemi á borð við bílaumboð, iðnaðarhverfi eða önnur mannvirki sem ekki eru tengd íþróttum og/eða útivist.
  • Að borgarstjórn efni tafarlaust samning um íþróttamiðstöð ÍR dags. 24. apríl 2008. Þess er krafist að Reykjavíkurborg setji byggingu íþróttamiðstöðvar ÍR í Suður- Mjódd á fjárhagsáætlun ársins 2017. .
  • Að horft verði til framtíðar og landsvæðið tryggt komandi kynslóðum sem munu stunda íþróttir og útivist. Ef þrengt verður meira að íþróttasvæði ÍR í Suður-Mjódd með áframhaldandi uppbyggingu annarra mannvirkja en íþrótta og útivista er verið að takmarka möguleikann til frekari uppbyggingar - með tilheyrandi skerðingu fyrir komandi kynslóðir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert