Kallaði fanga „helvítis asna“

Frá Litla-Hrauni. Maðurinn kvartaði við umboðsmann Alþingis á síðasta ári.
Frá Litla-Hrauni. Maðurinn kvartaði við umboðsmann Alþingis á síðasta ári. mbl.is/Ómar Óskarsson

Umboðsmaður Alþingis segir að svör og viðbrögð stjórnvalda við kvörtunum fanga á Litla-Hrauni sem sagði starfsmann fangelsisins hafa kallað sig „helvítis asna“, hefðu ekki verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti.

Umboðsmaður beinir þeim tilmælum til Fangelsismálastofnunar og innanríkisráðuneytisins að þau tækju fyrri afgreiðslur sínar á erindum mannsins vegna málsins til endurskoðunar, kæmi fram beiðni frá honum um það.

Kvartaði yfir framkomunni

Maðurinn leitaði til umboðsmanns Alþingis í júní í fyrra og kvartaði yfir framkomu starfsmanns fangelsisins í sinn garð og viðbrögðum stjórnvalda við kvörtunum hans vegna þeirrar framkomu.

Samkvæmt gögnum málsins sagði starfsmaðurinn að fanginn væri „helvítis“- eða „andskotans“ asni. Einnig sagði hann fanganum að „snauta áfram“ eða „snáfa sér í burtu“.

Í áliti umboðsmanns Alþingis kemur fram að skömmu eftir að fanginn leitaði til forstöðumanns fangelsisins vegna málsins hafi starfsmaður fangelsisins endurtekið ummæli sín með óbeinum hætti og þá í viðurvist fanga.

Fanginn hafði áður leitað til Fangelsismálastofnunar og innanríkisráðuneytisins vegna málsins. Því var vísað frá ráðuneytinu vegna þess að fanginn taldist ekki aðili að starfsmannamáli starfsmanns Litla-Hrauns.

Komi fram af kurteisi

Í álitinu kemur fram að áhersla sé lögð á að starfsfólk fangelsa komi fram við fanga af kurteisi, lipurð og réttsýni, sem og á málefnalegan hátt og af virðingu fyrir mannlegri reisn þeirra. Mælt er með því að fyrir hendi sé eftirlit eða úrræði til að endurskoða hvort samskipti við fanga hefðu verið í samræmi hefðu verið í samræmi við þær reglur og sjónarmið sem gilda um þau.

Jafnframt beinir umboðsmaður Alþingis þeim almennu tilmælum til stjórnvaldanna að þau tækju í störfum sínum framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem gerð væri grein fyrir í álitinu og að sérstaklega yrði hugað að því að koma þessum málum almennt í skilvirkari og tryggari farveg en raunin var í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert