Norðurljósasýning í kvöld og á morgun

Norðurljósadans.
Norðurljósadans. Ljósmynd/Kristján Freyr

Búast má við áframhaldandi norðurljósasýningu í kvöld og á morgun en bæði er talsverð virkni  á straumum sólvinda þessa dagana og þá ætti að vera gott útsýni og létt yfir um mest allt land í kvöld. Á morgun er spáð enn meiri virkni á rafsegulstraumum sem gæti gert norðurljósin enn tignarlegri, en skýjahula mun þá lauma sér yfir norðurlandið og skyggja á sýn á norðurhluta landsins.

Aðstandendur Stjörnufræðivefsins virðast bjartsýnir á að kvöldið verði gott fyrir norðurljósaunnendur, en á Facebook-síðu vefsins segir að norðurljósin verði „litskrúðug og kröftug eins og í gær. Gott að vera úti milli 22 og 00.“

Samkvæmt Veðurstofu Íslands er útlit fyrir að létt verði yfir öllu landinu núna í kvöld og ætti því að vera nokkuð góðar líkur á að sjá dýrðina leika um himininn. Ef skoðaðar eru tölur frá segulmælingastöðinni í Leirvogi sem Raunvísindastofnun Háskóla Íslands heldur úti má sjá að mestar sveiflur á segulmælingum voru milli miðnættis og þrjú síðustu nótt.

Norðurljósaspá Veðurstofu Íslands

Norðurljós við Hádeigismóa.
Norðurljós við Hádeigismóa. mbl.is/Árni Sæberg

 

Segir veðurfræðingur að á morgun sé útlit fyrir að það gangi skýjabakki yfir norðanvert landið þegar líða tekur á kvöldið. Það muni væntanlega skyggja á mest alla norðurljósasýningu, en svokallað Kp-gildi, sem segir til um hversu sterkir segulstormarnir eru sem valda norðurljósunum, verður þá í hæsta gildi sínu þessa dagana.

Við suðurströndina gæti einnig orðið lágskýjað næstu nótt, en ef fólk fer inn í landið ætti það að losna við öll ský að sögn veðurfræðings.

Fyrir áhugasama um fræðilega hlutann á bak við norðurljós og sólvinda er hægt að fræðast nánar um það hjá Stjörnufræðifélaginu, bæði í eftirfarandi Facebook-færslu og á vef félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert