Bjarni: Álverum muni ekki fjölga

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að leiðin fram á við sé ekki að stórfjölga stóriðjuverum á Íslandi. „Ég sé ekki fyrir mér, til dæmis, að álverum muni fjölga á Íslandi í framtíðinni,“ sagði Bjarni á Alþingi í dag.

„Ég sé það hins vegar fyrir mér að smærri iðnaðarfyrirtæki geti haslað sér hér völl við þannig fengið meiri fjölbreytni í viðskiptahóp raforkufyrirtækjanna,“ sagði Bjarni ennfremur.

„Síðasta álverið sem hefur verið í umræðunni er álver í Helguvík. Ég sé ekki að það álver sé að verða sér út um rafmagn. Það virðist ekki vera að fæðast nein lausn á því og að öðru leyti þá sé ég ekki að það sé afl til að stefna á slík verkefni á næstunni, og ég vísa þar meðal annars til rammaáætlunarinnar og annarrar eftirspurnar sem við erum með fyrir framan okkur.“

Þetta kom fram við sérstakar umræður á Alþingi um kostnað við ívilnanir til stóriðju. Málshefjandi var Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar. 

Bjarni segir að það hafi verið góð stefna fyrir Ísland að nýta sjálfbæra orku og selja hana, meðal annars til stóriðjuvera sem kaupi orkuna dag og nótt allt árið um kring. Hann bendir á að þessi fyrirtæki séu frábrugðin öðrum fyrirtækjum hvað þetta snerti. 

„Þetta hefur gert okkur kleift að nýta þetta mikla afl, og við erum að nýta hreina orku,“ segir Bjarni.

Bjarni lauk málinu sínu á því að segja að það hafi skapað feykilega mikil verðmæti fyrri samfélagið með nýta orkuna með þeim hætti sem gert hafi verið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert