Glæpurinn gegn náttúrlegu eðli

Ítarleg dómskjöl, bréf og bréfasamskipti embættismanna gerðu Þorvaldi kleift að …
Ítarleg dómskjöl, bréf og bréfasamskipti embættismanna gerðu Þorvaldi kleift að fara í saumana á máli Guðmundar. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Fyrirsögnin hér að ofan er yfirskrift erindis sem Þorvaldur Kristinsson, rithöfundur og kynjafræðingur, flytur í kvöld á fundi Félags íslenskra fræða um einn þátt rannsókna sinna á sögu samkynhneigðra á Íslandi.

Guðmundur Sigurjónsson, landsþekktur glímukappi og íþróttafrömuður, kemur við sögu, en hann er eini Íslendingurinn sem dæmdur var samkvæmt hegningarlögum, sem giltu frá 1869 til 1940, og sat í fangelsi fyrir mök við fullveðja karlmenn. Einnig siðafárið sem geisaði í Evrópu síðustu áratugi 19. aldar og í byrjun þeirrar 20. Og sitthvað fleira.

Þótt málaferlin gegn Oscar Wilde í lok 19. aldar tröllriðu fréttum vestan hafs og austan, var varla á þau minnst í íslenskum dagblöðum. Og ekki heldur þegar skáldið var dæmt í tveggja ára fangelsi fyrir samkynhneigð árið 1895. Svipað var uppi á teningnum þegar glímukappinn Guðmundur Sigurjónsson var kærður – og síðar dæmdur – fyrir að eiga mök við karla, eða samræði gegn náttúrlegu eðli, eins og það var kallað í dómskjölum árið 1924. Opinberlega var lítið um málið rætt. Guðmundur fékk uppreisn æru í fyllingu tímans og smám saman féll það að mestu í gleymsku og dá.

„Íslendingar þögðu vandlega um siðafárið sem geisaði í Evrópu frá því um 1890 og fram að fyrri heimsstyrjöldinni 1914 og speglaðist í umræðum um mannlegt hvatalíf, sýnilegt og heyranlegt, m.a. barneignir, takmörkun barneigna, vændi, getnaðarvarnir og kynsjúkdóma. Einn angi umræðunnar var samkynlegt athæfi og varð hún þá bæði hatursfull og ofstopakennd. Ásökun um að menn iðkuðu samkynhneigð varð eins konar pólitískt afl. Vísasta leiðin til að fella valdamenn af stalli var að klína því á þá að þeir væru sódómískir. Orðræðan virtist fara algjörlega framhjá Íslendingum,“ segir Þorvaldur Kristinsson, rithöfundur og kynjafræðingur, sem í kvöld kynnir einn þátt rannsókna sinna á sögu samkynhneigðra á Íslandi á fundi Félags íslenskra fræða.

Þöggun og blygðunarsemi

Fyrrnefndur Guðmundur kemur mikið við sögu í erindi Þorvaldar, Glæpurinn gegn náttúrlegu eðli, þótt áherslan sé öðrum þræði á samkynhneigð á meginlandi Evrópu á síðustu áratugum 19. aldar og í byrjun þeirrar 20.

„Mál hans er merkilegt í þjóðarsögunni enda virðist það nánast eina heimildin um íslenskt vitundarlíf þegar samkynhneigð og samkynlegt atferli voru annars vegar. Úti í heimi voru borgarsamfélögin forsenda umræðunnar, en nándin á Íslandi gerði það að verkum að menn stigu varlega til jarðar. Mér finnst áhugavert að skoða hvaða hliðstæður eða andstæður má draga milli veruleikans í þessum efnum í Evrópu og á Íslandi. Þöggunin hér helgaðist af blygðunarsemi. Samkynhneigð, eða kynvilla eins og hún var þá kölluð, þótti mikil smán, sem aðeins var slúðrað um, klæmst með eða nefnd í kerskni,“ segir Þorvaldur og nefnir í leiðinni að orðið homosexual hafi fyrst verið notað í erlendu bréfi, sem þýsk-ungverskur læknir skrifaði um málefnið árið 1869.

Sama ár voru sett á Íslandi lög um refsingar fyrir „samræði gegn náttúrlegu eðli“. Lögin giltu til 1940 og er Guðmundur eini fullveðja einstaklingurinn sem dæmdur hefur verið samkvæmt ákvæðum þeirra og setið hefur í fangelsi. Þorvaldur rekur lífssögu Guðmundar, aðdraganda málaferlanna og afleiðingar þeirra. Hann veltir því fyrir sér hvaða gildi saga hans hafi til skilnings á sögu samkynhneigðra og í hvaða mæli sú saga kallast á við reynslu karla í svipaðri stöðu annars staðar í Evrópu.

Félagslegur áhrifamaður

„Ekki er hægt að draga þá ályktun að samkynhneigðir á Íslandi hafi haft tengsl sín á milli á bak við tjöldin. Þeir kunnu líkast til varla orð yfir hneigðir sínar. Hópeflis verður ekki vart fyrr en um og upp úr 1940, þótt slíkt hafi verið vel þekkt í stórborgum Evrópu allt frá því á miðöldum. Berlín var til dæmis mekka samkynhneigðs fólks löngu fyrir aldamótin 1900. Mál Guðmundar var einangrað, en hafði miklar afleiðingar fyrir hann persónulega. Hann hafði verið félagslegur áhrifamaður, í forystu íþróttahreyfingarinnar, Góðtemplarareglunnar og Guðspekifélagsins, en vék úr öllum ábyrgðarstöðum í hálfan áratug eftir að hann var dæmdur fyrir þann glæp að vera samkynhneigður.“

Ítarleg dómskjöl, bréf og bréfasamskipti embættismanna gerðu Þorvaldi kleift að fara í saumana á máli Guðmundar. Einnig rannsakaði hann óbeinar heimildir, þær fáu blaðagreinar sem fjölluðu um málið sem og munnmælasögur. „Án þessara heimilda værum við úti í þokunni hvað varðar samkynhneigt líf á Íslandi fyrir heimsstyrjöldina síðari,“ segir hann og víkur talinu að sakborningi, aðdraganda málaferlanna og eftirmálum.

Tákn karlmennskunnar

„Guðmundur æfði með Glímufélaginu Ármanni og var í flokki pilta sem þreyttu kapp í Konungsglímunni á Þingvöllum til heiðurs Friðriki VIII Danakonungi. Hann þótti snjallasti glímumaður landsins í sínum þyngdar- og stærðarflokki og var í hópi pilta sem sýndu glímu á Ólympíuleikunum í London 1908. Hann ferðaðist um landið á vegum Ungmennafélags Íslands og kenndi íþróttir áður en hann lærði íþróttaþjálfun og sjúkraþjálfun á Englandi. Árið 1914 settist hann að í Winnipeg í Kanada, lærði grísk-rómverska glímu og ísknattleik, lék með Winnipeg Falcons og þjálfaði síðan liðið. Hann hélt með kanadískum sjálfboðaliðum á vígstöðvarnar í Evrópu 1916 þar sem hann var hjúkrunarmaður í fremstu víglínu til stríðsloka. Árið 1920, sama ár og hann fluttist aftur til Íslands, unnu Fálkarnir til gullverðlauna á Ólympíuleikunum í Antwerpen,“ segir Þorvaldur og heldur áfram:

„Í Reykjavík starfaði Guðmundur sem glímukennari, þjálfari í frjálsum íþróttum og nuddari íþróttamanna. Ennfremur veitti hann forstöðu útibúi Kleppsspítala sem kallað var Litli-Kleppur, var atkvæðamaður í Ungmennafélagi Reykjavíkur og mikill bindindis- og hugsjónamaður, sem sinnti því hlutverki fyrir góðtemplara að upplýsa lögregluna um ólöglega sölu áfengis.“

Þorvaldur segir að Guðmundur hafi verið þjóðþekkur maður og tákn karlmennskunnar á sinni tíð, afskaplega vinsæll og vel liðinn. Engu að síður hafi hann átt sér óvildarmenn. Sprúttsalar landsins voru ekki í aðdáendahópnum.

„Þeir klekktu á honum með því að kæra hann fyrir illa meðferð á sjúklingum, en hann var sýknaður af þeirri ákæru, og mök við karla. Ákæran var tekin til rannsóknar í janúar 1924. Fjórtán manns voru kallaðir til yfirheyrslu. Sumir kváðu ásakanirnar tilhæfulausar, aðrir staðfestu kynferðislegar þreifingar og mök. Guðmundur var í einangrunarvist í fangelsi meðan yfirheyrslur stóðu yfir. Í fyrstu neitaði hann sakargiftum og allt benti til að málið yrði látið niður falla. Eftir viku í einangrun bugaðist hann og játaði að hafa átt mök við nokkra menn sem slíkt höfðu á hann borið. Athæfi sem hann taldi þó hvorki syndsamlegt né refsivert,“ segir Þorvaldur.

Náðaður fyrir orð lækna

Guðmundur sat inni í fjóra mánuði en var þá náðaður fyrir orð tveggja lækna, Guðmundar Thoroddsen og Guðmundar Björnssonar, landlæknis, sem töldu hegningarlögin gjörsamlega úrelt. Þorvaldur kemur nánar að þeirra þætti í erindinu.

„Opinberlega stóðu þeir þó ekki við bakið á Guðmundi. Vörn þeirra kemur aðeins fram í einkabréfum milli embættismanna. Þeim þótti viðfangsefnið vera vísindanna en ekki dómstólanna. Sú skoðun var meira og minna ríkjandi á heimsvísu áratugum saman, eða allt fram á áttunda áratuginn að samkynhneigð var tekin af alþjóðlegu sjúkdómaskránni.“

Saga samkynhneigðra á Íslandi er um margt merkileg og ekki síst í ljósi málaferlanna á hendur Guðmundi Sigurjónssyni, glímukappa, sem þó er öllu þekktari fyrir þátt sinn í íþróttasögu Íslands. „Um ævi hans er lítið vitað í fimm ár eftir að dómur féll annað en það að hann missti starf sitt, hraktist úr íþróttahreyfingunni en bjó þó allan þann tíma í Reykjavík. Minningar um þetta mál voru að mestu fyrndar þegar hann sótti um uppreisn æru 1935 og hlaut hana með konungsbréfi Kristjáns. Guðmundur lét tímann vinna með sér gegn niðurlægingunni, tók aftur til starfa hjá íþróttahreyfingunni og átti að mörgu leyti farsælan feril, “ segir Þorvaldur að lokum.

Þorvaldur flytur erindi sitt á fundi Félags íslenskra fræða kl. 20 í kvöld, miðvikudag 28. september, í safnaðarheimili Neskirkju við Hagatorg.

Glæstur íþróttaferill

1883 Guðmundur fæddist á Litluströnd í Mývatnssveit, næstyngstur tíu systkina. Benedikt, bróðir hans, er sagður fyrirmynd Fjalla-Bensa í Aðventu Gunnars Gunnarssonar.

1905 fluttist Guðmundur til Reykjavíkur og hóf æfingar með Glímufélaginu Ármanni.

1907 var Guðmundur í flokki pilta sem þreyttu kapp í Konungsglímunni á Þingvöllum.

1908 var hann í hópi sem sýndi glímu á Ólympíuleikunum í London.

1913-1924 Guðmundur nam íþróttaþjálfun og sjúkraþjálfun á Englandi, settist síðan að í Winnipeg í Kanada, þar sem hann lærði grísk-rómverska glímu og ísknattleik. Hann lék með og þjálfaði Winnipeg Falcons áður en hann hélt með kanadískum sjálfboðaliðum á vígstöðvarnar í Evrópu 1916. Í lok ársins 1920 fluttist hann aftur til Íslands, kenndi glímu, var þjálfari í frjálsum íþróttum og nuddari íþróttamanna.

1924 Guðmundur kærður fyrir illa meðferð sjúklinga og mök við karla. Hann var sýknaður af fyrri ákærunni, en sakfelldur af þeirri síðari og sat inni í fjóra mánuði.

1930 tók hann aftur til starfa í íþróttahreyfingunni.

1935 fékk Guðmundur uppreisn æru með konungsbréfi.

1942 hóf hann að kenna glímu hjá Íþróttafélagi Reykjavíkur.

1948 fylgdi Guðmundur liði Íslendinga á Ólympíuleikana í London sem nuddari. Hans síðasta verk í ellinni var að semja kennslubók í glímu.

1967 Guðmundur lést 14. janúar.

Guðmundur, 22ja ára, um það leyti sem hann hóf æfingar …
Guðmundur, 22ja ára, um það leyti sem hann hóf æfingar með Glímufélaginu Ármanni þar sem hann átti samfellda sigurgöngu.
Fálkarnir fræknu. Ísknattleiksliðið Winnipeg Falcons árið 1920, sama ár og …
Fálkarnir fræknu. Ísknattleiksliðið Winnipeg Falcons árið 1920, sama ár og Fálkarnir unnu gullverðlaun á Ólympíuleikunum í Antwerpen. Guðmundur Sigurjónsson, þjálfari liðsins, er lengst til vinstri.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert