Meirihluti á móti ókeypis lóðum til trúfélaga

18-29 ára fólk reyndist líklegri en aðrir til að vera …
18-29 ára fólk reyndist líklegri en aðrir til að vera andvígir (82,3%) ókeypis lóðaúthlutun en einstaklingar 68 ára og eldri reyndust líklegastir til að vera fylgjandi (15,5%). mbl.is/Golli

MMR kannaði viðhorf Íslendinga gagnvart úthlutun ókeypis lóða til trúfélaga til að byggja trúarbyggingar. Alls sögðust 75,9% svarenda vera andvíg og þar af 48,3% mjög andvíg. Einungis 8% sögðust vera fylgjandi. Hlutfall þeirra sem sögðust vera andvíg hækkaði milli ára en hlutfall fylgjandi stóð í stað.

Spurt var: Almennt séð, hversu fylgjandi eða andvíg(ur) ertu því að trúfélög fái úthlutað ókeypis lóðum til að byggja trúarbyggingar hjá sveitafélögunum?
Svarmöguleikar voru: Mjög andvíg(ur); Frekar andvíg(ur); Hvorki fylgjandi né andvíg(ur); Frekar fylgjandi; Mjög fylgjandi; Veit ekki; Vil ekki svara.
Samtals tóku 94,4% afstöðu til spurningarinnar, en þau sem ekki tóku afstöðu svöruðu „Veit ekki/vil ekki svara“ (5,6%). 

Nokkur munur reyndist vera á afstöðu fólks eftir lýðfræðihópum og ber að benda á nokkur atriði. Einstaklingar í yngsta aldurshópnum (18-29 ára) reyndust líklegri en aðrir til að vera andvígir (82,3%) en einstaklingar 68 ára og eldri reyndust líklegastir til að vera fylgjandi (15,5%). Alls sögðust 77,6% íbúa af höfuðborgarsvæðisins vera andvíg samanborið við 72,3% þeirra sem búsett voru á landsbyggðinni.

Þegar afstaða er skoðuð eftir stuðningi við flokka sést að stuðningsmenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna voru töluvert líklegri en stuðningsmenn annarra flokka til að vera fylgjandi úthlutun ókeypis lóða en 16,6% Samfylkingarfólks sögðust fylgjandi og 17,1% Vinstri grænna. Jafnframt voru þeir sem studdu ríkisstjórnina (80,6%) líklegri til að vera andvígir en þeir sem ekki studdu ríkisstjórnina (73,7%).

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri, valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 985 einstaklingar, 18 ára og eldri
Dagsetning framkvæmdar: 20. til 26. september 2016

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert